Falleg og góð baka hæfir vel á þjóðhátíðar-kaffiborðið og er líka góð sem eftirréttur eftir góða sumarmáltíð. Bökur sem þessar eru ef til vill ekki þær fljótlegustu og einföldustu, en fegurðin og bragðið gerir fyrirhöfnina svo sannarlega þess virði. Að sjálfsögðu skiptir hráefnið miklu máli, því betri sem jarðarberin eru, því betri er bakan og því fallegri sem fjólurnar eru því fallegri er bakan. Sykurmagnið er smekksatriði, hér er bakan ekki höfð mjög sæt, en það má vel bæta við sykurmagnið, bæði í botninn og ostablönduna ef þið hafið smekk fyrir mjög sætar kökur og eftirrétti. Ég hef hins vegar tilhneigingu til að hafa sykurmagnið í lágmarki 🙂
Uppskrift
Sætur bökubotn
- 170 gr. hveiti
- 2 msk. sykur
- 100 gr. kalt smjör skorið í litla bita
- 1 eggjarauða
- 2-3 msk. kalt vatn
- 40-50 gr. suðusúkkulaði, rífið á rifjárni í smáar flögur (t.d. með Microplane járni)
Hnoðið saman smjöri, hveiti og sykri – mér hefur reynst best að vinna deigið í matvinnsluvél. Bætið eggjarauðu og hluta af vatninu saman og hnoðið þar til deigið er komið í góða kúlu. Athugið að ekki er víst að það þurfi allt vatnið. Mikilvægt er að hnoða deigið eins lítið og mögulegt er – þannig verður það stökkt og gott, en ef það er hnoðað of mikið er hætt við því að það verði seigt. Setjið deigið í skál og geymið í kæli í u.þ.b. 15 mínútur.
Fletið deigið út á hveitistráðu borði og setjið í 24-26 cm bökuform. Setjið farg á deigið og bakið við 180 C í 10-15 mínútur, takið fargið af botninum og bakið áfram í 3-5 mínútur eða þar til botninn er gullinn á lit. Rífið súkkulaðið niður og dreifið því yfir botninn um leið og þið takið hann úr ofninum. Kælið og setjið á kökudisk.
Fylling
- 1 egg
- 2 tsk. sykur
- 1/2 tsk. vanilludropar*
- 250 gr. mascarpone ostur
- 1/2 dl. rjómi
- 250-300 gr. jarðarber
- ferskar fjólur
Hafið maskarpone ostinn við stofuhita. Setjið egg, vanillu og sykur í skál og hrærið vel saman. Bætið ostinum og rjómanum smátt og smátt saman við og hrærið þar til allt er vel samlagað, ljóst og létt.
Takið græna stilkinn af jarðarberjunum og skerið berin í jafnar og fallegar sneiðar. Raðið þeim yfir fyllinguna og skreytið með fjólum.
* mikilvægt er að nota dropa sem unnir eru út ekta vanillu, ég útbý mín sjálf með því að kljúfa nokkrar vanillustangir, setja í fallega litla flösku u.þ.b. 200 ml. og fylla hana með góðu vodka, t.d. Reyka vodka.
Girnileg =) En hvaða baunir eða hnetur eru þetta þarna á myndinni?
þetta eru þurkaðar smjörbaunir sem ég nota aftur og aftur sem farg ofan á bökubotna – það er þegar ég forbaka þá, eða baka án fyllingar er gott að setja farg ofan á botninn svo hann lyfti sér ekki og haldi lögun sinni.
Dásamleg baka! Ótrúlega falleg – og pottþétt bragðgóð 🙂
TAKK, takk Elín – það er gaman að nota æt blóm til að skreyta kökur og salöt sem dæmi. Bakan vakti lukku 🙂