Þetta salat rekur uppruna sinn til miðausturlanda og er á þeim slóðum oft borið fram sem einn af nokkrum réttum á hlaðborði, Meze. Salatið er allt í senn; dásamlega einfalt, fallegt og gott. Það hentar hvort sem er með fisk-, kjöt-, eða grænmetisréttum, nú eða eitt og sér. Ég hef útbúið þetta salat fyrir lítil og stór matarboð, en líka áður en ég fer í ferðalög og haft með grilluðum silung eða kjúkling og auðvitað er einfalt að útbúa það þegar á tjaldstæðið eða í fjallaskálann er komið ef því er að skipta. Í lengri og styttri gönguferðum er líka gaman að skipta hefðbundnum samlokum út fyrir salat sem þetta.
Oft er fersk mynta í uppskriftinni, en ég sleppi henni yfirleitt – finnst sítrónan og steinselja njóta sín betur án myntunnar – en auðvitað er það smekksatriði. Hlutföllin í þessari uppskrift eru ekki heilög – notið það sem til er hverju sinni – það eru t.d. oft hafðar gúrkur í Tabbouli, en þær átti ég ekki til í þetta sinn og því eru þær ekki tilgreindar í uppskriftinni minni hér.
- 1 bolli bulgur
- 2 bollar soðið vatn
- 1 – 2 tsk. sjávarsalt
- 2 msk. ólífuolía
- safi úr 1/2 sítrónu
- 2-3 tómatar, velþroskaðir og skornir í smáa teninga
- 1/2 rauðlaukur smátt saxaður
- 3-4 vorlaukar, skornir í fínar sneiðar
- 2 hvítlauksgeirar, pressaðir og smátt saxaðir
- rauð paprika, skorin í smáa teninga
- fersk steinselja, u.þ.b. hnefafylli, söxuð smátt
- nýmalaður pipar e. smekk
Setjið bulgur í pott eða ílát með þéttu loki, hellið soðnu vatni yfir og þekjið með þéttu lokinu. Látið standa í u.þ.b. 15 mínútur. Ef kornið hefur ekki „drukkið“ í sig allt vatnið, sigtið þá það sem er umfram frá. Hellið sítrónusafa og olíu yfir kornið og hrærið vel.
Setjið smátt skorna tómata, lauk, papriku og steinselju í skál og blandið varlega saman. Hellið loks bulgur saman við og blandið vel saman. Smakkið til og saltið og piprið eftir smekk.