Það er einkar ljúft að eiga rabarbara út í garði 0g geta á góðum sunnudegi sem þessum rölt nokkur skref til að ná í um það bil 500 gr. í rabarbara-skúffuköku með sunnudagskaffinu. Kakan sú arna fékk mjög góð viðbrögð hjá fjölskyldunni sem umlaði af ánægju við kaffiborðið þennan sunnudaginn 🙂
Ef þú átt ekki garð með rabarbara þá eru ýmsar verslanir farnar að selja ferskan rabarbara í lausu meðal annars Frú Lauga en þar er þetta góðgæti yfirleitt til stóran hluta sumarsins.
Botn
- 150 gr. hveiti
- 100 gr. sykur
- 1 tsk. lyftiduft
- 2 egg
- 60 gr. smjör, brætt
- 1 tsk. góðir vanilludropar
Fylling
- 500 gr. rabarbari skorin í bita u.þ.b. 0,5 – 1 cm
- 40 gr. engifer fínt rifið
- 1 dl. sykur
Haframjölsmylsna – lok á fyllinguna
- 100 gr. mjúkt smjör
- 80 gr. tröllahafrar
- 80 gr. hveiti
- 80 gr púðusykur
- 80 gr. möndlur gróft saxaðar
Byrjið á að skera rabarbarann í bita og setjið í skál. Rífið engiferið yfir rabarbarann og blandið sykrinum saman við.
Setjið þurrefnin og möndlurnar sem fara í lokið á fyllinguna í skál, skerið smjörið í litla bita og hrærið saman við þurrefnin þar til blandan er eins og gróf mylsna.
Blandið öllu sem á að fara í botninn í hrærivélaskál og blandið vel saman. Jafnið deigið í skúffukökuform sem er u.þ.b. 35×25 cm. Athugið að þetta er þunnt lag og mikilvægt að jafna það vel út.
Dreifið rabarbarafyllingunni yfir deigið og stráið loks haframjölsmylsnunni ofan á.
Mín reynsla er sú að best sé að klæða skúffukökuformið með bökunarpappír, með því móti er einfalt að ná kökunni úr forminu í heilu lagi, hún festist ekkert og auðveldara er að skera hana í jafna bita eftir að hún er tekin úr forminu.
Bakið við 180 C í 35 – 40 mínútur.
Kælið og skerið í bita. Gott er að bera þeyttan rjóma fram með kökunum en það er alls ekki nauðsynlegt, kakan stendur alveg fyrir sínu ein og sér.
Ég kom heim með fullan poka af rabarbara í gærkvöldi og ætla að búa þessa skúffuköku til strax 🙂 Þetta er girnilegasta rabarbaraskúffukaka sem ég hef séð!
TAKK Nanna gaman að heyra 🙂 Vona að kakan standi undir væntingum þínum – mitt heimilisfólk og gestir voru ákaflega ánægð með hana.
Bakvísun: Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla | Krydd & Krásir
Bakvísun: Skyr, rjómi og rabarbari á nýstárlegum nótum | Krydd & Krásir