Ég hef nokkrum sinnum áður montað mig af garðinum mínum, en hann er ástæða þess að ég keypti íbúðina mína fyrir réttum 10 árum. Í þessum dásemdargarði er nefninlega ágætis aðstaða til að rækta smávegis af grænmeti og kryddjurtum sem við nýtum og njótum til hins ítrasta. Í sumar ræktaði ég nokkrar rauðrófur, þær eru hvorki margar né stórar en þeim mun betri. Tvær fóru í þetta salat hér, tvær í þetta dásemdarhummus og þá eru um það bil fjórar eftir enn úti í garði – ef til vill baka ég þessa súkkulaði- og rauðrófuköku um næstu helgi.
En aftur að uppskrift dagsins, dásemlega bleikur rauðrófuhummus – vel viðeigandi í bleikum október, hollur og nánast syndamlega góður. Ég borða hummus gjarnan ofan á hrökkbrauð eða flatköku, hann er líka góður með grænmeti svo sem ofan á gúrkusneið, vafinn inn í gott salatblað eða með gulrótum. Auk rauðrófunnar er eitt einkenni þessarar uppskriftar granatepla þykkni (pomegranate molasses)*, sem er svolítið notað í miðaustulenskri matargerð. Unnt er að nálgast granatepla þykkni í sérverslunum með austurlenskan mat. Ég keypti mína flösku í verslun á Suðurlandsbraut. Þetta er dökkur, þykkur, sætur en samt svolítið súr vökvi, unnin úr granateplum. Ef þið eigið þetta ekki má skipta þessu út fyrir balsamik edik.
- 300 gr. rauðrófur
- 300 gr. kjúklingabaunir, soðnar
- 1-2 hvítlauksgeirar
- 3-4 msk. thahini
- safi úr 1/2 sítrónu
- 1 1/2 msk. granatepla þykkni (pomegranate molasses)*
- 1/4 tsk. chili-pipar flögur
- 2 tsk. salt
- nýmalaður pipar
- kalt vatn eftir þörfum
Bakið eða sjóðið rauðrófurnar þar til þær eru mjúkar. Ég pakka mínum inn í álpappír og baka í ofni við 180° – 200°C í 15-20 mínútur eftir stærð, slekk síðan á ofninum og leyfi rófunum að hvíla í ofninum í smá stund. Ef þið sjóðið þær er best að sjóða þær heilar svo þær haldi lit sínum sem best. Suðutíminn fer að sjálfsögðu eftir stærð.
Setjið allt hráefnið í matvinnsluvél og maukið. Þynnið maukið með vatni eftir smekk – gætið þess þó að þynna það ekki um of – byrjið bara á 1 – 2 msk. Smakkið til með salti, sítrónusafa og pipar.
Hummusinn er betri daginn eftir að hann er útbúinn og geymist í nokkra daga í vel lokuðu íláti í ísskáp. Reyndar hefur ekki reynt á það hjá mér hve lengi hann geymist því svo góður er þessi hummus að hann klárast strax.
Bakvísun: Heiteykt makríl paté | Krydd & Krásir