Sunnudagar eru mínir uppáhalds – þá leggjum við áherslu á að eiga gæðastundir með þeim sem okkur þykir vænst um. Oft hóum við í fjölskyldu og vini í árdegisverð. Í dag tókum við í spil eftir að hafa gætt okkur á ýmsu góðgæti eins og grófu speltbrauði, rauðrófuhummus, ýmsum sultum, ostum, chutney og pestó. Á meðal nýjunga á borðinu í dag var paté úr heitreyktum makríl sem fékk svo góð ummæli frá gestum dagsins að það verðskuldar færslu hér. Þetta er ákaflega einföld uppskrift og galdurinn eins og oft áður – gott hráefni. Heitreykti makríllinn er frá Höfn í Hornafirði og hefur unnið til gullverðlauna á erlendri matarsýningu – hann kaupi ég yfirleitt í Frú Laugu. Ég get enn rölt út í kryddjurtabeðið mitt og náð í ferskar kryddjurtir og nýti það vel – enda stutt eftir að því tímabili.
- 250 – 300 gr. heitreyktur makríll
- 2 tsk. gott sinnep
- 2 – 3 msk. gott majónes eða sýrður rjómi
- 1 msk. sítrónusafi, nýkreistur
- 3 tsk. smátt saxað ferskt dill eða graslaukur
- pipar – nýmalaður
Hrærið sinnep, majónes og sítrónusafa saman í skál. Takið roðið af heitreikta makrílnum, hlutið hann í smáa bita og setjið út í skálina, maukið vel saman með gaffli. Blandið dillinu saman við ásamt nýmöluðum pipar. Hrærið vel saman og smakkið til með sítrónusafa og pipar.
Berið fram með góðu brauði og ef til vill ferskum baunaspírum.