Waldorf salatið er ómissandi um jólin. Á mínu heimili er salatið yfirleitt kallað eplasalat eða bara jólasalat – en Waldorf salat er töluvert virðulegra heiti þegar kemur að því að setja það á jafn fínan miðil og alnetið 🙂 Salatið er gott með villibráð, svínasteik og kalkún. Á aðfangadag eru alltaf eldaðir tvær steikur hjá Vatnsholtsgenginu – annars vegar fyllt gæs og hins vegar hinn hefðbundni hamborgarhryggur – það þurfa jú allir að fá það sem þeim þykir allra best að borða þetta kvöld.
Uppskrift
- 1 rautt epli
- 1-2 græn epli
- 1-2 stilkar sellerí
- 200-250 gr. vínber – rauð, blá eða græn
- 1 msk. sítrónu safi
- 50 gr. valhnetur
- 1,5 dl. rjómi, léttþeyttur
- 4-6 msk. grísk jógúrt
- 2 msk. hlynsíróp, eða hrásykur
Skerið eplin í hæfilega bita og selleríið í mjög smáa bita. Ef vínberin eru í stærri kantinum er gott að skera þau í tvennt en ef þau eru lítil hef ég þau bara heil – steinhreinsið berin. Setjið eplin í skál og blandið ferskum sítrónusafa saman við þau, blandið sellerí, vínberjum og nánast öllum valhnetunum saman við.
Hrærið grískri jógúrt, þeyttan rjóma og hlynsíróp saman og hrærið saman við eplablönduna. Skreytið með nokkrum valhnetum og ef til vill blöðum af selleríinu.