Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla

TínaMikið er gott að taka á móti árinu 2015 sem verður sérstaklega spennandi ár hjá Vatnsholtsgenginu. Við byrjuðum árið á því að setjast saman yfir góðum morgunverði með blað og penna í hönd og skrifa niður annars vegar fjölskyldumarkmið og hins vegar einstaklingsmarkmið. Þetta var í fyrsta skiptið sem við gerðum þetta á þennan hátt  og við skemmtum okkur öll mjög vel – enda bæði skemmtileg og gefandi stund. Eina reglan í þessari vinnu var að það var bannað að segja NEI – það mátti alveg ræða og rökræða markmiðin en ekki segja NEI. Næst á dagskrá er að setja markmiðin okkar upp á skemmtilegan hátt þannig að við getum betur fylgt þeim eftir og fylgst með framvindu þeirra. Meðal markmiða fjölskyldunnar á árinu er að elda og borða oftar úti í guðsgrænni náttúrunni, fara í fjöruferð og grilla, tína krækling og elda og ganga Fimmvörðuháls svo dæmi séu nefnd.

Sjálf stend ég líka á tímamótum á þessu ári – mun fylla nýjan tug og er staðráðin í að láta gamla drauma rætast um leið og ég hlakka óendanlega til að takast á við nýtt hlutverk og nýjar áskoranir.  Þá er ég staðráðin í að knúsa fólkið mitt oftar, hlægja meira, elska heitar og njóta líðandi stundar betur.

Á þessum tímamótum velti ég því líka fyrir mér hvort ég eigi að halda þessu bloggi áfram – er ekki alveg viss… þetta er mjög skemmtilegt og ýtir mér svo sannarlega út fyrir þægindarammann sem er bæði hollt og gott – en ég er líka svolítið feimin, roðna ennþá þegar talað er um þetta í návist minni, roðna enn meira þegar fólk talar um mig sem  matargúru – það er svo langt, langt frá upplifun minni. Ég man jú fyrst eftir mér 5 ára við eldavélina að matbúa fyrir mig og bróður minn sem þá var 4 ára. Ég réð mig í sveit 12 ára þar sem ég eldaði fyrir 7-8 manna fjölskyldu í heilt sumar og næstu sumur var ég alltaf í sveit þar sem eldhúsið var yfirleitt mitt.  Þá vann ég upp á fjöllum að elda fyrir erlenda ferðamenn í nokkur sumur við frumstæðar en mjög skemmtilegar aðstæður í 12 – 19 daga fjallaferðum á vegum Ferðaskrifstofu Úlfars Jacobsen.  En matargúru – nei það er ég ekki – bara áhugamanneskja sem tók áskorun táningsdóttur um að byrja að blogga  🙂  En ég ætla að gefa mér tíma til að ákveða framhaldið hér – þangað til er hér listi yfir fimm vinsælustu uppskriftir síðasta árs.

1. Sjö klukkustunda sunnudagslæri.  Uppskriftir þar sem lambakjöt kemur við sögu eru alltaf vinsælar, en þessi sló öll met og ég hef aldrei séð aðra eins umferð um síðuna eins og eftir að þessi uppskrift var sett inn.  Þessi eldunaraðferð er mjög góð, kjötið verður einstaklega mjúkt – fyrirhöfnin er ekki mikil og unnt að skella sér í góða útivist með fjölskyldunni á meðan maturinn er að eldast.

Sjö klukkustunda sunnudagslæri

2. Gróf spelt brauð með fræjum.  Gróft spelt brauð sem ég hef bakað reglulega til margra ára. Upphaflega kom uppskriftin frá Sollu á Gló. Einfalt, gróft, hollt og gott brauð sem hefur þróast og breyst í gegnum árin. Galdurinn við þetta brauð er að hræra sem minnst í deiginu, einungis að blanda hráefnunum létt saman og þá verður brauðið létt í sér og dásamlega gott.

IMG_1415

3. Hæg-eldað nauta rib eye.   Þessi uppskrift var líka meðal þeirra vinsælustu í fyrra. Fyrsta flokkst hráefni skiptir öllu máli en Rib eye nautasteik sem er elduð við lágan hita í 10 klst. nánast bráðnar í munni. Á síðustu dögum ársins 2014 var þessi uppskrift mjög vinsæl og greinilegt að hægeldað nautakjöt var á borðum margra um árammót.

IMG_8766

4. Ristaðar möndlur með rósmarín, chili og saltflögum.  þessar möndlur eru ómótstæðilegar og líkt og fyrir síðustu jól útbjó ég þær þrisvar fyrir þessi jól, engu að síður voru þær nánast búnar þegar aðfangadagur rann upp.  Það er svolítil fyrirhöfn í þessum möndlum en vel þess virði.

IMG_9880

5. Rabarabaraskúffukaka.  Ég hlakka til næsta vors og fyrstu rabarbarauppskerunnar – þá verður þessi bökuð nokkrum sinnum svo góð er hún og athyglin sem hún fékk er vel þess virði.

Rabarabaraskúffukaka

 

Þessi færsla var birt undir Annað, Vinsælar uppskriftir. Bókamerkja beinan tengil.

4var við Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla

  1. Elín sagði:

    Frábært hjá ykkur að setja ykkur sameiginleg markmið – og já endilega haltu áfram að blogga um mat, ég nota uppskriftirnar heilmikið, til dæmis mexíkósku kryddblönduna þína! Takk fyrir öll yndislegu árin okkar 🙂

    • berglindolafs sagði:

      TAKK Elín og ástarþakkir sömuleiðis fyrir allt gamalt og gott. Áramót eru góð tímamót til að fara í svolitla naflaskoðun, hreinsa til, sortera og setja sér markmið. Þessi aðferð sem við notuðum núna var mjög skemmtileg og vonandi gengur okkur vel að hafa markmiðin í huga þegar líður á árið – það ætti að vera okkur auðvelt þar sem markmiðin snúa langflest að því að eiga saman gæðastundir við útivist, ferðalög, eldamennsku og fleira skemmtilegt um leið og þau ýta okkur sumhver aðeins út fyrir þægindarammann 🙂 Auðvitað íhuga ég reglulega hvort ég haldi áfram að blogga -þegar ég byrjaði þá var þetta bara grín – en hefur aðeins undið upp á sig, flest við þetta er mjög jákvætt en einstaka þættir sem eru aðeins óþægilegir – sérílagi athyglin sem ég roðna ennþá yfir – enda engin sérfræðingur heldur einungis leikmaður og vil alls ekki villa á mér heimildir 🙂 kærar kveðjur til þín og allra þinna

  2. arndis2013 sagði:

    Gleðilegt nýtt ár! Takk fyrir að leyfa okkur lesendum að njóta góðu og girnilegu uppskriftanna þinna. Ég hef mjög gaman af að lesa bloggið þitt og nota oft uppskriftirnar þínar :)Z

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s