Það er langt frá því síðasta færsla var sett á síðuna og löngu tímabært að ljúka þessari færslu sem ég byrjaði á fyrir tæpum þremur vikum – ég veit að nokkrir bíða eftir þessari uppskrift og vonandi gleðjast þeir aðilar nú þegar hún loks birtist. Það svo gaman að gleðjast, gleðja aðra, samgleðjast já og bara vera glaður yfir höfuð. Ég hef ákaflega margt að gleðjast yfir, en eins og svo margir þarf ég stundum að minna mig á það, ekki oft, en stundum 🙂 Ég þarf hins vegar ekki að minna mig á að samgleðjast þeim sem gengur vel – það er eitthvað sem ég, mjög ung, tók ákvörðum um að gera – það er að samgleðjast fremur en öfunda – öfundin getur nefninlega verið niðurrífandi, á meðan það að samgleðjast er uppbyggilegt, jákvætt og ánægjulegt.
Um daginn ákvað ég að gleðja samstarfsfélaga mína og mæta með nýbakaðar súkkulaði-banana-möffins með kaffinu á vikulegan starfsmannafund okkar. Í ár hef ég misst af flestum fundum okkar vegna anna utan skrifstofunnar. Ég hlakkaði því til að mæta loks á fundinn og fannst full ástæða til að gleðjast og mörg tilefni til að samgleðjast yfir mörgum ákaflega velheppnuðum verkefnum sem unnin voru á skrifstofunni á meðan ég var meira og minna fjarri góðu gamni 🙂
Eins og yfirleitt var bakkelsinu vel tekið og enginn fussaði yfir því að ég skildi baka, fólk gladdist yfir góðum kökum, fallegum degi og mörgum spennandi verkefnum sem unnin eru á þessum skapandi og skemmtilega vinnustað.
- 3 velþroskaðir bananar
- 1/2 bolli bragðlítil olía
- 2 egg
- 1/2 bolli púðusykur
- 1 1/2 bolli hveiti
- 3 msk. kakóduft
- 1 tsk. sódaduft
- 100 gr. suðusúkkulaði – gróft saxað
Stappið banana og hrærið olíunni saman við þá. Bætið eggjum og sykri saman við og hrærið vel. Blandið þurrefnunum saman, sigtið* og hrærið saman við bananablönduna. Loks er súkkulaðinu blandað vel saman við.
Setjið í 12 – 15 möffins form. Í þetta sinn uppgötvaði ég að öll pappírsformin mín voru búin – ég útbjó því form úr bökunarpappír og svei mér þá það er miklu smartara.
Bakið við 180°C í 15 – 20 mínútur.
* þetta er ekki nauðsynlegt en endilega sigtið þurrefnin ef þið nennið – kökurnar verða léttari og skemmtilegri 🙂