Ég man þegar ég smakkaði í fyrsta sinn ferkst basilpestó. Ég var stödd á Ítalíu fyrir rúmum 20 árum og að sjálfsögðu var ferska basilpestóið borið fram með heitu pasta. Ég hafði aldrei áður fengið jafn gott pasta. Daginn eftir leitaði ég uppi ostabúð sem seldi ferskt pestó, ekki er unnt að líkja því við það verksmiðjuframleidda. Ég keypti stóra krukku ásamt stóru stykki af parmesan osti og hélt veislu þegar heim til Íslands var komið. Í þá daga var ekki einfalt að komast yfir ferkst basil hér á landi – í dag fæst það hins vegar víða, auk þess sem frekar einfalt er að rækta basil í glugganum heima hjá sér yfir sumarmánuðina.
Nú nota ég pestó oftar sem viðbit með brauði eða góðu hrökkbrauði og útbý ýmsar útfærslur af því. Þessi uppskrift er ekki hin kassíska sem inniheldur auk basil, furuhnetur, hvítlauk og parmesan ost. Pestóið sem hér birtist er líka haft mun grófara en það hefðbundna. Ég smakkaði pestó þessu líkt á jóla-matarmarkaðnum fyrir utan Nóatún í fyrra, hjá Bergson mathús, keypti krukku eins og á Ítalíu fyrir margt löngu. Pestóið fannst mér svo gott að ég þróaði þessa uppskrift í kjölfari en hún líkist því sem ég keypti á markaðnum. Dásamlegt með góðu brauði og góðu áleggi.
- 1 búnt eða um það bil 60 gr. basilika
- 125 gr. kasjúhnetur
- 2 hvítlauksrif
- 1/2 sítróna – safi og fínt rifinn börkur
- 2 dl góð ólífuolía
- salt og nýmalaður pipar
Ristið kasjúhneturnar á pönnu og kælið. Setjið allt í matvinnsluvél og maukið að smekk, þetta pestó vil ég hafa frekar gróft. Magn olíu er líka smekksatriði – því meiri olía því þynnra mauk.
Bakvísun: Heiteykt makríl paté | Krydd & Krásir