Grænmetis Chili með sætum kartöflum (Chili sin Carne)

Chili sin Carne Það fer líklega ekki fram hjá nokkrum manni sem á annað borð les póstana mína á þessum miðli að ég á það til að sækja innblástur til Jamie Oliver þegar ég elda – svo er einnig með þennan rétt.  Í dag dröslaðist ég heim úr vinnunni fyrr en venjulega og ástæðan var ekki mjög ánægjuleg.  Slen og slappleika sem aðeins hafði örlaði fyrir þegar ég vaknaði í morgun magnaðist mjög þegar líða tók á daginn – mér var orðið ansi íllt í hálsinum og fann hvernig kvefpest var að ná yfirtökum. Ég hjólaði heim á leið í þessu fallega vetrarveðri, upp Laugaveginn og kom við í Heilsuhúsinu þar sem ég keypti undradropana Propolish. Þegar heim var komið tók ég líklega fimmfaldan ráðlagðan dagskammt, blandaði út í appelsínusafa og teygaði í einum rikk.  Lagðist undir sæng, svaf í 2,5 klst. og vaknaði öllu hressari. Sannfærð um að sterkur og hollur kvöldmatur væri það besta í stöðunni leitaði ég í smiðju Jamie – þessi réttur er innblásinn af rétti dagsins á heimasíðu hans.  Nánast allt sem til þurfti var til í eldhúsinu.   Með mínu tvisti varð þessi dásemdarréttur til og  verður án efa eldaður aftur.  Þess vegna deili ég uppskriftinni með ykkur – ásamt sögunni af sleninu sem ég mótmælti harðlega – enda komst ég ekki á Austurvöll, en þangað hugðust allmargir samstarfsmenn mínir fara eftir vinnu í dag.

Hráefni Chli sin Carne Uppskrift 

 • sæt kartafla u.þ.b. 500 gr. (ein stór eða tvær litlar)
 • 1 laukur
 • 1 græn paprika
 • 1 rauð paprika
 • 1-2 hvítlauksgeirar
 • 1-2 rauður chili, saxaður mjög smátt
 • 300-400 gr. nýrnabaunir (eða 2 dósir)
 • 1 dós tómatar
 • 1 msk. tómatpúrra
 • 1-2 dl vatn
 • handfylli af fersku kóríander
 • olífuolía
 • 1,5 tsk. broddkúmen (ég nota alltaf fræ, ristuð og steytt, en duftið má líka nota)
 • 1/2 – 1 tsk. chili-duft
 • 1 tsk. kanill
 • salt og nýmalaður pipar

Hitið ofninn í 200°C.  Skrælið sætu karöfluna og skerið í hæfilega bita (hæfilega munnbita). Setjið í skál ásamt 1-2 msk af olífuolíu og tæplega helmingnum af kryddinu, veltið til þar til kartöflubitarnir eru þaktir olíu og kryddi.  Setjið á pappírklædda ofnplötu.

Skerið laukinn fremur gróft og látið svitna í olíu á pönnu við vægan hita í nokkrar mínútur.  Skerið paprikuna í grófa bita. Merjið hvítlaukinn og saxið mjög smátt.  Chili á einnig að saxa smátt. Skerið stilkana af ferska kóríandernum og saxið smátt, en blöðin eru grófsöxuð. Bætið papriku, hvítlauk og chili á pönnuna og steikið við vægan hita í u.þ.b. 5 mínútur.  Bætið kryddinu og smátt söxuðum stilkum af ferska kóríandernum á pönnuna og steikið áfram í 5-10 mínútur.

Bætið tómötum, tómatpúrru og baunum (ef þið notið baunir úr dós þá hellið vökvanum frá) út á pönnuna.   Látið malla við vægan hita undir loki í 20-30 mínútur.

Bakið sætu kartöflurnar í ofni í u.þ.b. 15 mínútur eða þar til þær eru mjúkar í gegn og gullnar á litinn.

Loks er sætu kartöflunum bætt út á pönnuna ásamt ferska kóríandernum, blandað vel saman og smakkað til með salti og pipar.

Berið fram með hrísgrjónum, sýrðum rjóma eða kotasælu og fersku guacamole, en uppskrift af því má finna hér.

Chili sin Carne með sætum kartöflum

Þessi færsla var birt í Grænmetirréttir, Mexikóskir réttir og merkt sem , , , , . Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s