Sjö klukkustunda sunnudagslæri

Sjö klukkustunda sunnudagslæriÉg ólst upp við það sem lítil stúlka og síðar unglingur í sveit að á sunnudögum var nánast undantekningalaust lambahryggur eða lambalæri í matinn.  Eldunaraðferðin var alltaf sú sama. Lærið kryddað vel með salti og pipar, bakað í ofni í rúma klukkustund við fremur háan hita og borið fram með brúnni soðsósu, sykurbrúnuðum kartöflum og Ora grænum baunum. Í minningunni ákaflega ljúffengt og best var þegar svolítill afgangur var af steikinni sem unnt var að nýta í bixi-mat.  Í þá daga var aðalmáltíð dagsins gjarnan í hádeginu, sérílagi um helgar. Þessi hefð hefur ekki haldist – hvorki að hafa aðalmáltíðina í hádeginu né að bjóða upp á lambasteik allar helgar. En aðrar og skemmtilegar hefðir taka við af þeim eldri – undantekningalaust hittum við fólkið okkar um helgar og borðum saman.  Oft eru það síðbúnir árdegisverðir, en stundum sunnudagssteik á laugardags-, eða sunnudagskvöldi. Svo var þessa annasömu Airwaves-helgi. Eldunaraðferðin varð fyrir valinu vegna anna – en hún er ákaflega góð og hentar uppteknu fólki mjög vel.  Sérílagi þegar maður reynir að nýta helgarnar til að gera allt, allt, allt milli himins og jarðar og helst aðeins meira. Þá er gott að stinga steikinni í ofninn áður en haldið er út í daginn, leyfa henni að malla ein síns liðs á meðan farið er í fjallgöngu, sund, hjólatúr, tónleika tja eða #$*% eitthvað allt annað.

IMG_6159

Uppskrift 

 • 1 gott lambalæri
 • smávegis af ólífuolíu
 • 3 msk. ferskt rósmarín (eða 2 tsk. þurrkað)
 • 3 msk. ferskt tímína (eða 2 tsk. þurrkað)
 • 3 msk. ferskt oreganó (eða 2 tsk. þurrkað)
 • 1/4 tsk. chilipipar-flögur
 • salt og pipar
 • 4-6 gulrætur – skornar gróft
 • 2 laukar – skornir gróft
 • 4-6 hvítlauksgeirar, marðir undir hnífsblaði og skornir gróft
 • 2-3 lárviðarlauf
 • 1 bolli grænmetissoð

Hitið ofninn í 90-100°C.

Saxið kryddjurtirnar smátt.  Snyrtið lærið, nuddið það með smávegis af olífuolíu. Kryddið með smátt söxuðum kryddjurðum, salti, pipar og örlitlu chili – nuddið kryddinu vel á lærið.

Sjö klukkustunda lambalæriSetjið gróft skornar gulrætur, lauk, hvítlauk og lárviðarlauf í botninn á ofnpotti, kryddið með salti og pipar.  Hellið einum bolla af góðu grænmetissoði yfir grænmetið.  Leggið lærið ofan á grænmetið. Lokið ofnpottinum og bakið í 7 klukkustundir.   Takið pottinn úr ofninum þegar um það bil 15-20 mínútur eru eftir að steikartímanum.  Ausið nánast öllu soðinu sem er í pottinum frá og setjið í soðkönnu eða pott.  Setjið lærið aftur í ofninn en hafið lokið ekki á, hækka hitann í 250°C og brúnið kjötið. Leyfið kjötinu að hvíla í 10-15 mínútur áður en það er borið fram.

Einföld soðsósa

 • soðið úr ofnpottinum um það bil 500-750 ml.
 • 40 gr. smjör
 • 40 gr. hveiti
 • 2 dl. rjómi
 • 1 tsk. rifsberjahlaup (eða annað sætt berjahlaup)
 • salt og pipar

Þegar 15 – 20 mínútur eru eftir af eldunartíma lærisins, takið þið ofnpottinn úr ofninum, og ausið mesta soðinu frá lærinu eins og áður er getið.  Síið soðið, fleytið mestu fituna ofan af ef soðið er mjög feitt.

Útbúið smjörbollu með því að bræða smjörið og bæta hveitinu smátt og smátt út í. Hrærið soðinu smátt og smátt saman við smjörbolluna og látið hitna vel á milli.  Látið malla í 5-10 mínútur þegar allt soðið hefur verið hrært saman við smjörbolluna. Bætið sultunni og rjómanum út í og hrærið vel. Látið malla við hægan hita í nokkrar mínútur.  Smakkið til og bragðbætið með salti og pipar ef vill.

Við bárum kjötið fram með sósunni, bökuðum kartöflum, smjörteiktum sveppum og kúrbít og fersku grænu salati.

 

Þessi færsla var birt í Kjötréttir, Sósur og merkt sem , , , , , , , , . Bókamerkja beinan tengil.

3var við Sjö klukkustunda sunnudagslæri

 1. Bakvísun: Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla | Krydd & Krásir

 2. sverrir Halldorsson sagði:

  afhverju er notuð ólívuolíu en ekki íslenska repjuolíu ,og einnig að taka fram að þegar lærið fer inn í ofn sé það við stofuhita

 3. Sigríður Lárusdóttir sagði:

  Hlakka til að hvernig þetta mun bráðna í munn okkar takk fyrir að kenna mér hvernig á elda læri,🇦🇽😘

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s