Það er fátt betra en fjölbreytni – tala nú ekki um þegar einfaldleiki og hollusta fylgja með. Hvað er betra á morgnana en eitthvað fljótlegt, einfalt hollt og gott? Nú þegar garðurinn minn er stútfullur af grænkáli og spínati þá nota ég tækifærið og útbý skemmtilega þeytinga – þessi er einn þeirra sem verðskulda færslu – í honum er hæfilegt blanda af grænmeti og ávöxtum og AB mjólk að auki, en henni má að sjálfsögðu skipta út fyrir möndlu-, eða haframjólk. Eins og alltaf þegar um þeytinga er að ræða þá má að sjálfsögðu leika sér með hlutföllin og aðlaga að eigin smekk – galdurinn er fólgin í góðu hráefni og hugmyndaauðgi. Njótum dagsins!
- 1 banani
- 2 bollar grænkálsblöð
- 1 bolli frosin brómber
- 1 bolli AB mjólk eða hrein jógúrt
- 1/2 bolli ferskur appelsínusafi (u.þ.b. 1/2 – 1 appelsína)
- 1 tsk. rifin engiferrót
- 1 tsk. hunang
- hampfræ ofan á glasið
Setjið allt í blandarann og blandið vel saman. Hellið í falleg glös eða á flösku og njótið. Ég hef áður sagt frá því að á morgnana set ég eina tsk. af hampfræjum ofan á hvert glas þegar ég útbý þeyting. Hampfræin eru mjög holl, innihalda meðal annars mjög hátt hlutfall próteina og eru stútfull af omega 3 og 6 fitusýrur. Það er örlítill hnetukeimur af hampfræjunum sem ég kann vel að meta þegar þau eru sett ofan á glasið eða þeim hært varlega saman við drykkinn eftir að honum er hellt í glas eða flösku.