Um páskana er upplagt að gera svolítið vel við sig, hóa saman besta fólkinu og smella í góðan árdegisverð. Við tókum forskot á sæluna, skreyttum borð, smelltum í góðan gerbrauðkrans með súkkulaði, pekanhnetum og marsipani, keyptum gott súrdeigsbrauð hjá Sandholt, bökuðum sætar kartöflur, smelltum í pestó, röðuðum dásemdar áleggi fallega á bakka, kreistum sikileyskar blóðappelsínur og blönduðum saman við safa af nokkrum gulrótum og engifer – kveiktum á kertum og áttum dásemdarstund með góðu og fallegu fóki upp úr hádegi í dag. Stundir sem þessar verða seint ofmetnar og eru viðeigandi á degi sem tileinkaður er hamingjunni, en alþjóðlegi hamingjudagurinn er i dag. Í dag eru líka vorjafndægur og Friðarsúlan í Viðey mun næstu sjö kvöld minna okkur á mikilvægi þess að hugsa okkur frið – vikan getur vart byrjað betur.
Uppskrift
- 25 gr. ferskt ger eða 2,5 tsk. þurrger
- 2,5 dl. mjólk
- 1 msk. hrásykur
- 80 gr. smjör
- 1 egg
- 450-500 gr. hveiti
Fylling
- 50 gr. smjör, brætt
- 3 msk. hrásykur
- 100 gr. marsipan
- 100 gr. súkkulaði
- 60 gr. pekanhnetur
Ofan á
- 1 egg
- 1 msk. hrásykur
Hitið mjólkina í u.þ.b. 37°C eða þar til hún er fingurvolg. Hrærið 1 msk. af hrásykri og gerinu saman við. Látið standa þar til gerið fer að freyða.
Bræðið smjörið, setjið hveiti, egg og brætt smjör í hrærivélaskál. Hellið ger-mjólkur-blöndunni saman við og hnoðið vel í u.þ.b. 5-7 mínútur, sjálf nota ég hrærivélina mína til verksins og deigkrókinn sem henni fylgir. Athugið að byrja á að nota 450 gr. af hveitinu og bæta frekar meiru saman við ef deigið er allt of blautt. Deigið á að vera sprungulaust og glansandi. Setjið klút yfir skálina og látið hefast á hlýjum stað í 1-2 klukkustundir.
Ristið pekanhnetur á heitri pönnu og saxið gróft. Saxið súkkulaðið fremur gróft og bræðið smjörið.
Fletjið deigið út þar til það er u.þ.b. 45X35cm. Penslið með bræddu smjöri, stráið sykri yfir smjörið, dreifið þá hnetunum og súkkulaðinu jafnt yfir og rífið marsipanið loks yfir allt saman.
Rúllið deiginu þétt saman og skerið eftir endilöngu í tvennt. Vefjið lengjunum saman. Setjið á pappírsklædda bökunarplötu og búið til hring/krans. Setjið klút yfir kransinn og látið hefast í 30-60 minútur.
Hitið ofninn í 180°C og blástur. Penslið með þeyttu eggi og stráið 1 msk. af hrásykri yfir. Bakið í 30-35 mínútur.
Nammmm – ætla að prófa þessa í páskafríinu, hrikalega girnileg uppskrift..
Takk kæra Bergdís – Mínu fólki fannst þessi alveg ríflega í lagi í gær – vona að upplifun þín verði eins 🙂