Ég stóðst ekki mátið þegar ég sá tilkynningu um nýjan sjógenginn regnbogasilung frá versluninni Kjöt & Fisk á fésbókarsíður þeirra í dag. Matseðill kvöldsins var ákveðinn og frumburðinum og fjölskyldu hennar boðið í mat. Hugmyndin af þessum rétti er fengin úr ástralska matartímaritinu Donna Hay sem ég er rafrænn áskrifandi af á Ipadinn. Að sjálfsögð breytti ég, stíl- og staðfærði uppskrifina og útkoman hreint stórgóð.
Uppskrift
- 1 bolli Perlubygg frá Móður Jörð
- 2,5 bollar gott grænmetissoð
- 500 gr. spergilkál, skorið í bita
- 1 dl. möndlur, gróf skornar
- 1/2 – 1 rauður chili, skorinn smátt
- olífuolía
- salt og pipar
- 800 gr. væn silgungs- eða laxaflök
- 3 msk. gott rautt pestó, t.d. heimagert sjá þessa uppskrift hér
- rifin sítrónubörkur af 1 sítrónu
- 1 msk. sítrónusafi
Hitið ofninn í 200°C.
Sjóðið perlubyggið í góðu grænmetissoði í 15 mínútur eða skv. leiðbeiningum á pakkanum.
Setjið olífuolíu um það bil u.þ.b. 2-3 msk. af olífuolíu, skorið chili, spergilkál, möndlur salt og pipar í stóra skál og veltið því saman svo það blandist vel.
Setjið á pappírsklædda ofnplötu og bakið við 200°C í 5-7 mínútur.
Saltið og piprið fiskinn, stráið örlítilu af rifnum sítrónuberki yfir hann og setjið í ofnskúffuna með spergilkálinu. Bakið áfram í 8-10 mínútur eða þar til fiskurinn er rétt um það bil rétt eldaður – ath að hann heldur áfram að eldast þegar hann er tekinn út úr heitum ofninum.
Þegar perlubyggið er soðið er það sett í stóra skál ásamt pestó, rifnum sítrónuberki af u.þ.b. 1/2 sítrónu og sítrónusafa og hrært vel saman. Blandið síðan spergilkálblöndunni saman við perlubyggið – raðið fallega á fat ásamt fiskinum og berið strax fram með einföldu grænu salati ef vill.