Sunnudagskakan þennan sunnudaginn er ekki alveg hefðbundin en hreint afbragð. Innihaldið minnir á miðjarðarhafið. Síðustu daga og vikur hefur mig dreymt um sól og suðrænar strendur. Það lítur ekki út fyrir að ég láti þann draum rætast þetta árið, en ég mun örugglega smella aftur í þessa köku mjög fljótlega, svo góð er hún.
Uppskrift
- 60 gr. pistasíuhnetur
- 200 gr. hveiti
- 2 tsk. lyftiduft
- 1 tsk. engifer-duft
- 1/2 tsk. stjörnuanis-duft
- 1/2 tsk. salt
- 2 dl. olífuolía
- 150 gr. hrásykur
- 2 egg
- 60 gr. ljósar rúsínur
- 1 kúrbítur (u.þ.b. 300 gr.)
- Börkur af einni sítrónu (bara ysta lagið)
Hitið ofninn í 180°C. Þegar ofninn er orðinn heitur ristið þá pistasíuhneturnar í ofninum í 5 mínútur. Kælið.Rífið kúrbítinn á rifjárni. Blandið hveiti, lyftidufti og kryddi saman í skál, setjið hneturnar saman við.
Hrærið olífuolíu og sykri vel saman, bætið eggjunum saman við einu í senn og hrærið vel þar til blandan verður ljós og létt. Blandið þá restinni af hráefnunum saman við og hrærið varlega saman – best finnst mér að blanda þessu saman með sleikjunni.
Sett í velsmurt formkökuform (okkar form er 28 cm langt) og bakað við 180°C í 50 – 55 mínútur eða þar til prjón sem stungið er i miðjuna kemur hreinn út.
Leyfið kökunni að kólna í forminu í 15 – 20 mínútur áður en hún er tekin úr því.