Sunnudagsmorgun í september. Rokið lemur tré og gróður í garðinum. Í útvarpinu þylur þulur viðvaranir um vindhraða og akstur. Esjan hvít niður í miðjar hlíðar. Haustið er skollið á og veturinn skammt undan. Í mínum huga rómantískur tími þar sem kertaljósin eru loks brúkuð aftur eftir nokkurra mánaða hvíld svo ekki sé minnst á arinininn í stofunni. Það er líka rómantískt og ljúft að baka góðar vöfflur á svona sunnudagsmorgnum. Þessi uppskrift er innblásin af síðunni hjá Joy the Baker (www.joythebaker.com) og svo góð að henni varð ég að deila hér.
- 1 1/2 bolli hveiti
- 2 tsk. lyftiduft
- 1/2 tsk. sódaduft
- 1/2 tsk. salt
- 3 msk. sykur
- 1 msk. ferskur rifin börkur af sítrónu
- 75 gr. brætt smjör
- 2 stór egg
- 1 tsk. vanilla
- 3 msk. ferskur sítrónusafi
- 1/2 bolli kotasæla (hrærið mjög vel með gaffli)
- 3/4 bolli mjólk
- 2 tsk. blá birkifræ
Byrjið á að blanda saman sykrinum og sítrónuberki í lítilli skál og hæra vel.
Blandið öllum öðrum þurrefnum saman, þ.e. hveiti, lyftiduft, sódaduft og salti. Bætið sítrónusykrinum saman við.
-
- Hrærið eggjum, mjólk, kotasælu, smjöri og vanillu vel saman í annari skál.
-
Blandið nú eggjablöndunni saman við þurrefnin og gætið að því að hræra ekki of mikið. Að síðustu er birkifræjunum blandað út í.
Hitið vöfflujárnið vel og bakið vöfflurnar þar til þær eru gullinbrúnar. Berið strax fram með ferskum berjum og hlynsírópi eða á hefðbundin íslenskan hátt með sultu og rjóma.
En fallegar. Ég bakaði einmitt vöfflur í morgun og fannst mjög kósý að hlusta á vindinn, drekka kaffi og prufukeyra belgíska vöfflujárnið mitt.
Mjög falleg og skemmtileg síða sem þú ert með 🙂
kærar þakkir Nanna – það er gaman að fá útrás fyrir áhugamálið á þessum miðli – það hvetur mann til dáða að deila þessu. Ég hef fylgst með þínu bloggi um margra ára skeið og varð svo ánægð þegar ég sá færsluna þína í gær – hef saknað þín í sumar 🙂
Bakvísun: Ommeletta með grænkáli, sólþurrkuðum tómötum og chorizo | Krydd & Krásir