Góðar súpur eru hinn besti hversdagsmatur og þegar hausta tekur er gott að búa til súpu sem yljar. Þessi er sáraeinföld og dásamlega góð. Svo tekur ekki langan tíma að útbúa hana frá grunni – holl, góð, einföld og fljótleg – hvað getur maður beðið um meira á fimmtudagskvöldi 🙂
- 1 kg. ferskir tómatar, blanda af ýmsum gerðum, smáum, heilsu-, sherry- og venjulegum
- 4 hvílauksgeirar
- 1/2 chili
- 1 rauðlaukur
- 3 msk. balsamik edik
- olífuolía
- handfylli af ferskri basiliku
- salt og pipar
Hitið ofninn í 200°C. Skerið stóru tómatana í fjóra parta, en hafið þá minni heila. Kremjið hvítlauksgeirana undir hnífsblaði og saxið mjög gróft. Fræhreinsið chili og skerið í fjóra parta. Setjið tómata, hvítlauk og chili í eldfast mót, hellið u.þ.b. 4 – 5 msk. af góðri olíu yfir og saltið og piprið. Bakið ofarlega í heitum ofninum í 15 mínútur.
Skerið rauðlaukinn gróft, látið hann svitna í 2 msk. af ólífuolíu í potti við lágan hita í nokkrar mínútur. Hellið balsamik ediki yfir laukinn og látið krauma þar til tómatarnir eru tilbúnir.
Þegar tómatarnir eru tilbúnir er þeim hellt yfir laukinn í pottinum – setjið nánast alla basilikuna út í pottinn en geymið nokkur falleg basilikublöð til að skreyta súpuskálarnar með þegar þær eru bornar fram.
Maukið vel með töfrasprota eða í blandaranum/matvinnsluvélinni. Ef blandarinn er notaður er best að kæla súpuna aðeins, og mauka þetta í 2 – 3 skömmtum.
Berið fram með smá slettu af sýrðum rjóma, nokkrum dropum af góðri ólífuolíu og nokkrum fallegum blöðum af basiliku og að sjálfsögðu góðu brauði.
Tómatsúpa