Léttur, fljótlegur og góður réttur á vel við í kvöld – þegar nánast allir sitja límdir við skjáinn að fylgjast með íslenska landsliðinu í Króatíu. Pasta með túnfisk hljómar ekkert sérlega frumlega hvað þá spennandi. En þegar við veljum að nota fyrsta flokks túnfisk, bætum kjúklingabaunum, grískum kalamata ólífum, sólþurrkuðum tómötum, sveppum og furuhnetum við, þá fer þetta nú að verða svolítið spennandi. Já og gott líka – vona bara að leikurinn verði jafn góður. Réttur þessi er bæði góður heitur og kaldur – afgangurinn er komin inn í ísskáp og mun fylgja mér í vinnuna á morgun – hádegisverði morgundagsins er sumsé bjargað.
- 250 gr. pasta (ég notaði spelt skrúfur)
- 1 dós túnfiskur (mæli með þeim spænska sem fæst í Frú Laugu)
- 2 – 3 msk. olífuolía
- 100 gr. sveppir, skornir í sneiðar
- 2 hvítlauksgeirar, pressaðir
- 100 gr. sólþurrkaðir tómatar, skornir gróft
- 12 – 15 svartar olífur (grískar kalamata eru bestar)
- 2 dl. kjúklingabaunir soðnar
- 2 – 3 msk. furhnetur, ristaðar á þurri pönnu
- 3-4 msk. íslensk fjallasteinselja
- sjávarsalt og svartur nýmalaður pipar
- rifinn parmesan ostur
Sjóðið pasta í vel söltu og bullsjóðandi vatni skv. leiðbeiningum á pakkanum eða þar til það er “Al Dente” sem þýðir að það er enn dálítið bit í því.
Hitið olíu á pönnu og steikið sveppina í smá stund við vægan hita. Bætið hvítlauk, sólþurrkuðum tómötum, ólífum, kjúklingabaunum á pönnuna, blandið vel og látið hitna við vægan hita. Bætið loks steinselju og furuhnetum út í, kryddið með salti og nýmöluðum pipar.
Berið fram með rifnum parmesan osti og einföldu grænu salati.