Eins og á mörgum íslenskum heimilum er hefð hjá okkur að borða lamb á páskadag. Yfirleitt höfum við lambalæri og leikum okkur svolítið með útfærsluna í hvert sinn. Lærið í ár var frekari hefðbundið og allir á einu máli um að það hefði heppnast sérlega vel – svo vel að það verðskuldar færslu hér 🙂 Eldunin á lærinu var með þeim hætti að allir fengu bita við hæfi, bæði unglingurinn og tengdamamma sem vilja hafa sinn bita vel eldaðan og tengdasonurinn sem kýs velrautt kjöt. Galdurinn í ár fólst einnig í ferskum kryddjurtum og helling af hvítlauk, smá sítrónu og svolítið af chili ásamt nýmöluðum pipar og góðu íslensku sjávarsalti.
Meðlætið var maukuð sveppasósa, Hasselback kartöflur, smjörsteiktar gulrætur og strengjabaunir ásamt einföldu grænu salati.
Uppskrift
- lambalæri
- 12 hvítlauksrif
- 2-3 greinar rósmarín
- 2-3 msk. ferskt tímían
- örlítið af þurrkuðum chiliflögum
- safi úr hálfri sítrónu
- 3 msk. olífuolía
- sjávarsalt og nýmalaður pipar
í ofnskúffuna eða ofnpottinn setjum við:
- 2 gulrætur, gróft skornar
- 2 sellerý stilka, gróft skorna
- 1 lauk gróft skorinn
- 4 hvítlauksrif marin undir hnífsblaði
- 1 glas hvítvín eða rauðvín eða bara vatn ef þið viljið ekki eða eigið ekki vín
Byrjið á að snyrta lærið og stinga litlum hníf í það á nokkrum stöðum, kannski 12-14 stungur. Takið 4-6 hvítlauksgeira og skerið þá í 2-3 parta eftir endilöngu, troðið hvítlauksgeira ásamt 2-3 laufum af rósmarín í hverja stungu á lærinu. Merjið afganginn af hvítlauksgeirunum undir hnífsblaði og skerið smátt. Saxið rósmarín og tímían smátt og blandið ásamt hvítlauknum við olíu og sítrónusafa. Kryddið vel með salti, pipar og svolitlu af chiliflögum. Nuddið lærið vel upp úr blöndunni og leyfið að marenerast í nokkrar klukkustundir eða yfir nótt.
Hitið ofninn í 220°C. Setjið lærið í ofnpott eða ofnskúffu og bakið í u.þ.b. 15 mínútur, lækkið þá hitann í 180°C og bakið áfram í u.þ.b. klukkustund eða þar til kjarnhiti er um 60° Takið lærið úr ofninum, hellið soðinu úr ofnpottinum og takið grænmetið með. Látið lærið hvíla í u.þ.b. 15 mín. á meðan sósan er kláruð.
Sósa
- 100 gr. ferskir sveppir
- 20 gr. þurrkaðir sveppir
- 30 gr. smjör
- soð og grænmeti úr ofnpottinum (það sem bakað var með lærinu)
- 2 – 3 dl. matreiðslurjómi
- salt og pipar
Skerið fersku sveppina í sneiðar og brjótið þurrkuðu sveppina í bita. Látið malla í smjörinu í 20-30 mínútur. Bætið grænmetinu sem var í ofnpottinum með lærinu út í pottinn, og sigtið soðið og bætið því saman við. Blandið vel saman og maukið síðan með töfrasprota. Setjið aftur yfir hita og hrærið rjómanum saman við. Kryddið með salti og pipar eftir smekk.