Haustið er svolítill uppáhaldstími hjá mér – sjálf á ég afmæli í lok ágúst og yngri dóttir mín í byrjun september. Uppskerutíminn nær hámarki, ber, sveppir, nýjar kartöflur, gulrætur og allt gómsæta rótargrænmetið að ógleymdum kertaljósunum sem aftur fá að njóta sín á kvöldin. Fyrsta haustlægðin lét ekkert bíða eftir sér þetta haustið, hressilegt rok og rigning og fátt ljúfara en að útbúa gómsæta súpu, kveikja á kertum og njóta.
- 1-2 msk. olía
- 1 laukur, skorinn gróft
- 1 meðalstór (650 gr.) sæt kartafla, skorin í bita
- 200 gr. gulrætur, skornar í bita
- 2 hvílauksgeirar, marðir undir hnífsblaði og gróft saxaður
- 1/2 chili, saxaður
- 1 tsk. broddkúmen (cummin)*
- 1 tsk. kóríander*
- 1 lítri gott gænmetissoð
- 1 msk. sítrónusafi
- salt og pipar
Hitið olíu í potti og steikið laukinn við lágan hita í 5-8 mínútur eða þar til hann verður glær. Bætið hvítlauk og chili útí og steikið áfram í nokkrar mínútur. Bætið broddkúmeni og kóríander út í og blandið vel. Setjið sætu kartöflurnar og gulræturnar út í pottinn og steikið áfram í nokkrar mínútur. Bætið grænmetissoðinu út í, látið sjóða undir loki i um það bil 20 mínútur. Maukið súpuna með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Bætið að lokum 1 msk. af sítrónusafa út í og kryddið eftir smekk með salti og pipar. Ath. ef súpan er of þykk, þynnið hana út með smávegis af vatni.
Berið fram með smávegis af grískri jógurt og góðum spírum eða sýrðum rjóma og saxaðri steinselju.
* Ég kaupi alltaf heilt broddkúmen og kóríanderfræ, steiki þau á þurri pönnu og steyti í mortéli – ég trúi að með því fáist dýpra og betra bragð – sérviska sem vel má sleppa og nota möluð krydd.