Vá með þessari færslu set ég nokkur persónulegt met. Ný færsla fjóra daga í röð, sex færslur á fjórum dögum og það lýtur út fyrir að október verði metmánuður í heimsóknum og færslum. Feimnin er líka smátt og smátt að renna af mér. Ég er hætt að roðna þegar einhver sendir mér komment og mér hlýnar óendanlega um hjartarætur þegar falleg frænka hringir í mig til að spyrja út í uppskrift af síðunni sem hún er að elda eftir. Já þetta er bara reglulega skemmtilegt. Ekki það að ég hafi allan tímann í heiminum til að sinna þessu áhugamáli, en það er nú einhvern veginn þannig að maður finnur tíma fyrir það sem manni finnst gaman, skapandi og gefandi.
Ég mun líklega seint setja inn nýja færslu á hverjum degi, en á meðan ég skemmti mér yfir þessu, fæ útrás fyrir sköpunargleðina, nýt aðstoðar fjölskyldunnar og finn að einhverjir njóta og nýta munu koma inn færslur. Stundum nokkrum sinnum í viku, stundum sjaldnar, allt er jú gott í hófi 🙂
- 500 gr. beinlaus kjúklingur (við notuðum lundir, en það má líka nota bringur)
- 1 msk. óreganó
- salt og pipar
- 1 bolli kúskús
- 2 bollar heitt grænmetissoð
- 1 msk. sítrónusafi nýkreistur
- 1 msk. olífuolía
- 1/4 – 1/2 rauður chili
- 2 – 3 vorlaukar
- u.þ.b. 10-15 svartar olífur
- u.þ.b. 8 konfekttómatar
- 50 gr. fetaostur (kubbur án olíu)
- salt og pipar
Sjóðið gott grænmetissoð (vatn og góður kraftur) og setjið kúskúsið út í – slökkvið undir pottinum og hafið þétt lok á honum. Látið standa í 10 – 15 mínútur. Þá er olífuolíu og sítrónusafa hrært saman við kúskúsið ásamt smátt söxuðum chili og pressuðum hvítlauk. Lokið sett aftur á pottinn og látið standa þar til rétturinn er settur saman.
Kryddið kjúklinginn með oreganó, salt og pipar og steikið í olífuolíu á stórri pönnu.
Skerið tómatana í báta, fetaostinn í teninga og vorlaukinn í bita.
Takið kjúklinginn af pönnunni, setjið kúskúsið á pönnuna ásamt grænmetinu og helmingnum af fetaostinum, hrærið varlega saman. Raðið kjúklingnum yfir og dreifið afganginum af fetasostinum yfir. Lokið pönnunni og leyfið að standa við lágan hita á eldavélinni í nokkrar mínútur þannig að osturinn mýkist aðeins.
Berið fram með grískri Tzatzíki sósu.