Mikið er sumarið dásamlegur árstími. Tími til að ferðast, liggja í tjaldi/tjaldvagni, ganga á fjöll, veiða í vötnum og ám, njóta útiveru og samveru með fjölskyldu og vinum, rækta kryddjurtir og grænmeti í garðinum, bardúsa við vegagerð og planta trjám, elda góða mat á hinum ýmsu stöðum við mismunandi aðstæður. Ferðast á nýjar og framandi slóðir, en líka á staði sem við þekkjum vel og höfum oft farið áður.
Ferðast með fólki sem manni þykir vænt um og hlakkar til að vakna með á morgnana. Detta úrvinda út af á kvöldin með vel þandar hláturtaugar og auma vöðva eftir hlátrasköll, söng, dans, keppni í stígvélakasti, boðhlaup í hringi og almenn skemmtilegheit langt fram eftir. Vakna úthvíldur, glaður í bragði og halda áfram að næra líkama og sál.
Eitt slíkt ferðalag var um síðustu helgi, þegar við enn eitt sumarið skunduðum með góðum vinum í Reykjadalinn – nánar tiltekið í Víðar rétt við Másvatn þar sem fjölskylda æskuvinkonu minnar á jörð og gamalt eyðibýli sem hefur verið gert upp sem sumarhús fjölskyldunnar.
Um eða upp úr hádegi hvern dag er farið á vatnið til að vitja neta. Ferskur Más-vatnssilungur dreginn á land og netin lögð að nýju. Við skiptumst á að fara á vatnið, stundum eru stelpuferð, stundum strákaferð og ferð með yngstu börnin. Allir taka þátt og yngstu krakkarnir keppast við að læra handtökin við netin og fiskinn. Ýmsar hefðir eru í heiðri hafðar og undanfarin 4 eða 5 ár höfum við hjónin séð um að grilla humarpizzu eitt kvöldið, uppskriftina af henni má finna hér. Önnur skemmtileg hefð er silungaveisla, þá er jafnvel silungur í forrétt og aðalrétt – í ár óskaði ég sérstaklega eftir að möndlu-silungurinn yrði eldaður svo ég gæti tekið myndir og deilt þessari góðu uppskrift hér. Við vorum 19 í mat þetta kvöld – ég endurtók því leikinn þegar heim var komið og minnkaði uppskriftina fyrir 4 – 6 og skráði magn niður miðað við þann fjölda. Salvíusmjörið setur punktinn yfir i-ið og athugið að það er mikilvægt að vera með ferska salvíu, hana er mjög einfalt að rækta í potti úti á palli eða á svölunum – mín er í kryddjurtabeðinu úti á palli, lifir langt fram á haust og hefur tvisvar komið upp aftur að vori.
Meðlætið er einfalt, gott ferskt salat og bakaðir kartöflubátar eða nýjar íslenskar soðnar kartöflur.
Uppskrift f. 4 – 6
- 50 gr. möndluflögur
- 800 – 1000 gr. silungs-flök, beinhreinsuð og skorin í hæfilega bita
- salt og pipar
- smjör og olía til að steikja upp úr
Salvíusmjör
- 75 – 100 gr. smjör
- salvía – fersk, u.þ.b. hnefafylli, gróft söxuð
Byrjið á að undirbúa kartöflurnar, þær þurfa lengstan tíma.
Ristið möndluflögurnar á pönnu.
Bræðið smjörið á pönnu og bætið smávegis af jurtaolíu út í til að smjörið brenni síður. Steikið fiskinn fyrst á roðlausu hliðinn í nokkrar mínútur, kryddið með salti og pipar, snúið við og steikið á roðhliðinni í nokkrar mínútur (fer eftir stærð og þykkt stykkjanna, en 3-5 mínútur á hvorri hlið er nær lagi). Stráið möndluflögum yfir silunginn á pönnunni og berið fram.
Á meðan þið steikið silunginn er salvíusmjörið undirbúið – setjið smjörið í pott og bræðið, þegar það fer að krauma setjið gróft saxaða salvíu út í smjörið. Smjörið á að brúnast og salvían að steikjast þar til hún verður stökk – passið samt að brenna ekki smjörið, hitinn má ekki vera of hár.
Berið strax fram með góðum kartöflum og salati.