Það hefur verið lítið um nýjar færslur á vefnum að undanförnu – en það er svo sannarlega ekki til marks um að lítið sé um að vera í eldhúsinu mínu – þvert á móti bíða svo margar hugmyndir að færslum eftir úrvinnslu að ég veit vart hvar á að byrja 🙂 Til þess að koma mér í gírinn þá valdi ég að setja inn nýjasta réttin, einfaldan eggjarétt sem var á brunch borðinu þennan sunnudagsmorgun. Ég veit fátt dásamlegra en að fá skemmtilegt fólk í heimsókn, elda góðan mat, njóta og spjalla um heima og geima. Í dag komu ákaflega kærir vinir til okkar í árdegisverð (brunch) – við bökðum sítrónuvöfflur eftir þessari uppskrift, náðum í gott súrdeigsbrauð hjá Sandholti, settum gott álegg, grænmeti og osta á bakka týndum til sultur, chutney og pestó sem eru alltaf er til í ísskápnum – útbjuggum hressandi drykk úr appelsínum, grænkáli, engifer og fleira góðgæti – helltum upp á gott kaffi og sátum síðan og nutum í 3 klukkustundir – gæðastund sem seint verður ofmetin. En aftur að þessum einfalda rétti – ommelettu – eins og stundum þá er þetta meira aðferð en heilög uppskrift – um að gera að aðlaga að eigin smekk og því sem til er hverju sinni. Við eigum svo mikið af grænkáli í garðinum að það hentar vel að nota það – en spínat virkar örugglega jafnvel.
- 4 egg
- 1-2 msk góð olía til að steikja upp úr
- 4-5 vænir stilkar af grænkáli
- 4 sólþurrkaðir tómatar, skornir í bita
- 16 sneiðar af chorizo pylsu
- 40 gr. feta ostur
- salt og pipar og ef vill örlítið af chili
- nokkur fersk basilblöð – grófsöxuð
Hitið ofninn í 180°C.
Fjarlægið stilkinn af grænkálinu og skerið kálið í grófa bita. Hitið olíuna á pönnu og steikið kálið í nokkrar mínútur þar til að mýkist. Skerið sólþurrkuðu tómatana í fremur smáa bita og bætið út á pönnuna. Í þetta sinn útbjó ég ommeletturnar í litlum Lodge pönnum og skipti því grænkáls- og tómatablöndunni jafnt á hverja pönnu – en þennan rétt má auðveldlega útbúa í einni stærri pönnu, þeirri sömu og þið notið til að steikja kálið á. Ég vel að útbúa omelltur í pönnu sem getur farið inn í ofn, þá þarf ég ekki að snúa þeim við á pönnunni. Raðið chorizio pylsunni ofan á grænkálsblönduna. Brjótið ostinn í grófa bita og dreifið yfir.
Hrærið eggin saman með gaffli, ef þið notið litlar pönnur eða form sem eru hentug fyrir einn – þá er best að hræra hvert egg fyrir sig og hella yfir pönnuna/formið.
Bakið í 180°C heitum ofni í 10 – 20 mínútur eftir því hvort þið eruð með eina stóra pönnu eða 4 minni.
Stráið gróft saxaðri basiliku yfir réttinn áður en hann er borin fram. Njótið yfir skemmtilegu spjalli með góðum vinum.
Hvað gerir þú ef sítrónu smjörið skilur sig
kæra Sigríður – ég hef ekki orðið fyrir því að sítrónusmjörið skilji sig – en gæti trúað að hitastigið á blöndunni sé aðeins of mikið – mæli því með að kæla það og þeyta saman þar til blandan samlagst vel.
Vona að þetta virki – kærar kveðjur: Berglind