Ég gæti byrjað þessa færslu á endalausum útskýringum eða afsökunum á bloggleysi síðustu 2ja mánaða – eða bara með því að óska ykkur gleðilegs árs og þakka kærlega fyrir það gamla – miklu smartara er það ekki? Ég er svo óskaplega spennt fyrir þessu nýja ári og um leið svo óendanlega þakklát fyrir árið sem var að líða.
Það hefur líklega ekki farið fram hjá ykkur frekar en mér hve margir nota janúar til að taka mataræði sitt til endurskoðunar. Margir taka „þurran“ janúar, nú eða taka ýmislegt út úr mataræði sínu, tímabundið eða til langframa s.s. sykur, hveiti, kornvörur, kjöt, fisk ofl. Veganúar er átak sem hefur vakið töluverða athygli – markmið þess er að vekja fólk til umhugsunar um dýra- og umhverfisvernd og áhrifin sem neysla okkar hefur bæði á velferð dýra og umhverfið og um leið á heilsu okkar. Góð og þörf áminnning sem má lesa meira um hér. Sjálf borða ég kjöt og fisk og er ekki að sjá fyrir mér að hætta því á næstunni þó ég sé orðin töluvert meðvitaðri neytandi á síðustu árum. Ég nota janúar til að setja mér nokkur velskilgreind og skemmtileg markmið fyrir komandi ár og eitt af markmiðum mínum fyrir árið 2016 er að sóa minna. Ég hef ákveðið að skilgreina sóun svolítið vítt, ætla að vera meðvitaðri um neyslu mína, eyðslu, tíma ofl. um leið og ég er staðráðin í að njóta líðandi stundar betur. Ég er þegar byrjuð í eldhúsinu heima hjá mér og er mun meðvitaðri í innkaupum, nýti hráefni betur, nota afganga meira og oftar, hendi minna og er um leið meðvituð um að ég á eftir að hrasa á þessari vegferð – en það er líka allt í lagi – lífið er til þess að njóta 🙂
Þessi uppskrift er tileinkuð þeim sem eru að taka þátt í Veganúar – uppskriftin inniheldur engar dýraafurðir, er ljómandi góð, raunar svo góð að ég rétt náði afgangi í eina litla krukku sem ég tók með mér í vinnuna daginn eftir og borðaði í hádeginu – það fór því ekkert til spillis.
- olífu olía
- 2 sætar kartöflur (u.þ.b. 7-800 gr.)
- 2 rauðlaukar, skornir í báta
- 1 tsk. boddkúmen fræ (eða duft, sjá*)
- 1 tsk. kóríander fræ (eða duft, sjá*)
- 4 hvítlauksgeirar, marinn undir hnífsblaði og saxaður smátt
- 1/2 – 1 rauður chilli, smátt saxaður
- 125 gr. rauðar linsur
- 1 l. gott grænmetissoð
- 200 ml. kókosmjólk (í fernu) eða 1 dós
- safi úr 1/2 sítrónu
- salt og pipar
ofan á
- kókosflögur – ristaðar
- steinselja eða ferskur kóríander, gróft saxað.
Hitið ofninn í 180°C. Skrælið sætu kartöflurnar og skerið í litla bita, u.þ.b. 1,5 x 1,5 cm Skrælið laukinn og skerið í báta, u.þ.b 2 cm. Setjið kartöflur og lauk í ofnfast fat.
Ristið broddkúmen og kóríander fræin á þurri pönnu í nokkrar mínútur, kælið aðeins og steytið í mortéli.
Stráið steyttu kryddinu yfir kartöflurnar og laukinn, saltið og piprið og dreifið um það bil 2-3 msk. af olífuolíu yfir og blandið vel saman. Bakið við 180°C í 20-30 mínútur eða þar til bakað í gegn og aðeins farið að brúnast.
Á meðan kartöflur og laukur bakast, hitið um það bil 2 msk. olífuolíu í víðum potti og hitið hvítlauk og chilli í olíunni í u.þ.b. 1 mín. Bætið þá rauðum linsum út í pottinn og veltið um í aðra mínútu eða svo. Hellið góðu grænmetissoði og kókosmjólk yfir linsurnar og látið suðuna koma upp. Látið krauma við vægan hita í 20 mínútur. Bætið kartöflum og lauk út í pottinn þegar það er fullbakað.
Maukið súpuna með töfrasprota eða í blandara/matvinnsluvél. Bætið sítrónusafanum saman við og kryddið til með salti og pipar eftir smekk. Ef súpan er of þykk, þynnið hana út með smávegis af vatni.
Berið súpuna fram heita með góðu brauði, setjið smávegis af ristuðum kókosflögum og steinselju ofan á hvern disk.
*Þessu má sleppa og nota duft í stað fræa – en sérviska mín segir að bragðið verði svo miklu dýpra og betra með því að nota fræin, rista þau og steyta.