Síðbúin árdegisverðarboð er ákaflega vinsæl hjá Vatnholtsgenginu og um páskana hefur ekki verið slakað neitt á í þeim efnum – heldur þvert á móti 🙂 Það er fátt skemmtilegra en kalla saman gott fólk, njóta góðs matar, segja sögur, gera plön og hlægja svolítið. Það eru margar uppskriftir á þessari síðu sem henta vel á árdegisverðarhlaðborð. Á borðum okkar um páskana voru auk hráskinkubollana, gróft og gómsætt brauð, pestó með sólþurrkuðum tómötum, rjómaostur með sólþurrkuðum tómötum og ólífum, nokkrir góðir ostar og annað álegg ásamt dásemdar chili-berja-sulta, amerískum pönnukökum og fersku grænmeti og ávöxtum, að ógleymdu dásemdar kaffi og góðum ávaxtasafa. Hæfileg blanda af hollustu og sætindum. Það er vel hægt að gleyma sér lengi og njóta bæði samveru og matar í boðum sem þessum.
- 12 hráskinkusneiðar
- 12 egg
- 200 gr. spínat
- 12 msk. rifinn ostur
- bragðlítil olía
- salt og pipar
Smyrjið bollakökuform með örlitlu af bragðslítilli olíu. Klæðið formin með hráskinku – stundum er gott að skera sneiðarnar í tvennt. Hráskinkan á að þekja bæði botn og hliðar hvers forms.
Steikið spínatið á pönnu í örlítilli olíu og kryddið með salti og pipar. Dreifið steiktu spínatinu jafnt í alla bollana.
Setjið um það bil 1 matskeið af rifnum osti í hvert form yfir spínatið.
Brjótið eggin og setjið eitt egg í hvert form.
Bakið við 180°C í 12-15 mínútur.