Kryddjurta- og kotasælubollur

Kotasælu- og kryddjurtabollurJá já – Gleðilegt árið kæru vinir og velunnarar þessarar síðu.  Það hefur verið fremur rólegt á þessum miðli, raunar svo rólegt að stundum roðna ég við tilhugsunina. Það eru margar færslur á vinnslustigi, sem stefnt er að ljúka á næstu dögum og vikum.  En hér er ein góð brauðbollu-uppskrift sem Vatnholtsgengið naut þess að snæða sl. sunnudag með dásamlegri gúllassúpu, sem ég er að vinna að færslu um.  Bollur þessar eru ákaflega bragðgóðar og passa vel með góðum súpum eða pottréttum, nú eða bara á morgunverðar- og árdegisverðarborðið með góðu áleggi.

Hráefni í kotasælu- og kryddjurtabollurUppskrift 

 • 4 dl. mjólk
 • 1 bréf þurrger (12 gr.)
 • 1 tsk. hunang
 • 200 gr. kotasæla
 • 1/2 dl. olía
 • 10 dl. brauðhveiti + 1-2 dl til að hnoða upp í deigið eftir hefun
 • væn lúka af ferskum kryddjurtum, t.d. oreganó, tímían, rósmarín og basilika, saxað gróft
 • 1 tsk. salt

Velgið mjólkina í u.þ.b. 37° C, hærið hunangið út í og leysið gerið upp í blöndunni.  Látið standa í 5-7 mín. eða þar til blandan fer að freyða.  Hrærið þá olíu og kotasælu út í.  Bætið hveitinu, kryddjurtunum og saltinu saman við og hnoðið vel saman, deigið er fremur blautt.

kotasaelu-og-kryddjurtabollurLeyfið deiginu að lyfta sér í a.m.k. klukkustund eða þar til það hefur tvöfaldað stærð sína.  Best er að hafa deigið á fremur heitum stað (t.d. með því að setja skálina yfir ílát með heitu vatni í, en gætið þess að skálin standi ekki ofan í vatninu).

Hnoðið smávegis af hveiti saman við deigið, eða þar til þið getið rúllað því í góða svera „pulsu“, skerið í fremur þykkar sneiðar og mótið góðar bollur úr hverri sneið af deiginu.

Setjið bollurnar á bökunarplötu, penslið með mjólk og látið hefast í u.þ.b. 15 mín.

Bakið við 220° C í 10 – 15 mínútur.

img_8928

 

Birt í Árdegisverður (Brunch), Bakstur | Merkt , , | 3 athugasemdir

Vanilludropar – heimagerðir

Þegar ég segi að eitthvað sé einfalt í matargerð þá er stundum hlegið að mér, ég reyni að taka það ekki mjög nærri mér, en núna má sko hlægja.  Það er nefninlega hlægilega einfalt að gera sína eigin vanilludropa og það er um það bil þúsund sinnum betra að nota heimagerða vanilludropa í bakstur og aðra matargerð sem kallar á slíka dropa, en keypta dropa frá ónefndu íslensku átöppunarfyrirtæki.  Svo er líka fáránlega smart að gefa heimagerða dropa í fallegu glasi með einföldu skrauti í jólagjöf, nú eða mæta með slíka flösku í matarboð til góðra vina í staðinn fyrir blómvönd eða bara með blómvendinum.

Litlar fallegar glerflöskur, búsnar vanillustangir, góður vodki og tími er það eina sem þarf – það er tími fyrir dropana til að marenerast vel  og taka gott bragð af vanillunni.  Leikur einn 🙂

Uppskrift 

 • 6 vanillustangir
 • 3-4 dl. vodki

Sótthreinsið* fallegar flöskur – ég notaði 3 flöskur sem hver tekur um 1,2 dl. en nota má bæði minni og stærri flöskur og aðlaga magnið að stærðinni á flöskunum.

Kljúfið vanillustangirnar og skerið þær í tvennt ef flöskurnar eru ekki þeim mun hærri, mikilvægt er að vodkinn fljóti yfir stangirnar í flöskunum.  Stingið 2 vanillustöngum í hverja flösku og hellið vodka þannig að hann fljóti vel yfir stangirnar. 

Fljótlega fer vanillan að lita vökvann og strax á 2. degi má sjá hvernig vökvinn tekur á sig gullinbrúnan lit.  Smátt og smátt verður vökinn dekkri og eftir u.þ.b. 3 vikur er vanilludroparnir tilbúnir til notkunar.  Sjálf fylli ég vodka reglulega á flöskuna án þess að taka upphaflegu stangirnar úr henni, bæti líka vanillu við þegar ég er t.d. að búa til jólaísinn og þarf bara vanillukornin út stönginni – þá sting ég henni út í flöskuna og á þannig alltaf góða vellyktandi vanilludropa – þá bestu sem ég hef nokkurn tíma átt.

Smart jólagjöf fyrir matgæðinga 🙂

Birt í Annað, Vinsælar uppskriftir | Merkt , , , , , , | 3 athugasemdir

Þorskur í tómat- og karrýsósu

Þorskur í tómat og karrýsósu Fljótlegur, fallegur og firnagóður fiskréttur með indverskum blæ. Bragðmikill og ákaflega góður á dimmu desemberkvöldi. Það er þakklátt að uppgötva svona rétti – tala nú ekki um á aðventunni þegar fiskneysla er ef til vill minni en á öðrum árstímum. Á vafri mínu um ansi velskipað matreiðslubókasafn mitt datt ég niður á uppskrift líka þessari hjá vini mínum Hugh Farnley-Whittingstall, breytti henni og stílfærði að smekk og takt við það sem til var í skúffum og skápum. Unglingurinn sem þreytir menntaskóla-jólapróf umlaði af ánægju, betri meðmæli eru vandfundin.

img_8555Uppskrift 

 • 1 msk. olía
 • 1 laukur skorinn fremur smátt
 • 1,5 cm ferskt engifer, rifið á rifjárni
 • 2 hvítlauksgeirar
 • 1 msk. gott karrý (milt madras)
 • 2 msk. tómatpúrra
 • 150-200 ml. kókosmjólk
 • 1/2 tsk. hunang
 • 700 gr. þorskur, eða annar hvítur fiskur
 • safi úr 1/2 lime (eða sítrónu)
 • salt og pipar

Meðlæti og ofan á réttinn

 • gróft söxuð steinselja eða kóríander
 • smávegis af svörtum laukfræjum (Kalonji)
 • Soðin basmati hrísgjón, eða önnur góð grjón

Hitið olíuna á pönnu yfir fremur lágum hita og látið laukinn malla í u.þ.b. 10 mínútur, eða þar til hann er alveg mjúkur og glær (ekki brúna hann).

tomat-og-karry-fiskurBætið rifnu engifer, hvítlauk og karrý út í og hrærið vel saman.  Bætið þá tómatpúrru,  kókosmjólk og hunangi út í, hærið saman. Kryddið með salti og pipar og látið malla við vægan hita í 10 mínútur.

Skerið fiskinn í bita og setjið út í sósuna, látið malla í 2-3 mínútur, snúið fiskinum og látið malla í aðrar 2-3 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn.  Gætið þess að ofelda fiskinn ekki og munið að hann heldur áfram að eldast eftir að hann er tekinn af hitanum.

Kreystið lime safa yfir pönnuna og blandið varlega saman.

Stráið laukfræjum og gróft skorinni steinselju yfir fiskinn og berið fram með góðum hrísgrjónum.

img_8563

Birt í Fiskur og sjávarfang, Indverskir réttir | Merkt , , , , | Færðu inn athugasemd

Sætkartöflusúpa með indversku ívafi

Sætkartöflu súpa með inversku ívafiBragðmikil og góð súpa á vel við á þessum árstíma.  Dimmt og kalt en oft á tíðum ákaflega fallegt veður.  Tíminn sem það er bæði dimmt er maður leggur af stað í vinnuna á morgnana og líka þegar maður kemur heim á daginn.  Þá er nú ósköp ljúft að kveikja á kertaljósum, hlusta á notalega tónlist og finna hvernig ilmurinn af þessari dásemdarsúpu fyllir íbúðina notalegri angan.

Fyrir þá sem eru vegan, er hér eitthvað fyrir ykkur – sleppið bara að setja jógúrt ofan á hverja skál þegar súpan er borin fram 🙂

Súpa - hráefniUppskrift

 • 2 msk. olífuolía
 • 1 laukur, saxaður fremur smátt
 • 4 hvítlauksgeirar, marðir undir hnífsblaði og saxaðir smátt
 • 4 cm bútur engifer ferskt, rifið á fínu rifjárni
 • 1/2 rautt chili, fræhreinsað og saxað smátt
 • 1 msk. garam masala
 • 2 tsk. madras karrí
 • 2 sætar kartöflur, skrældar og skornar í bita, 2 cm á kant (ca. 700gr)
 • 1 l gott grænmetissoð
 • 1 dós kókosmjólk, 400ml
 • 1 msk. ferskur sítrónusafi
 • Salt og nýmalaður svartur pipar

Ofan á

 • væn msk. af hreinni góðri jógúrt á hverja skál
 • örlítið af grófu söxuðu fersku kóríander eða steinselju

Hitaðu olíuna á góðum súpupotti yfir fremur lágum hita og settu smátt skorinn laukinn út i og látið malla við lágan hita í 10 mín.

img_8362Bættu hvítlauk, engineer, chilli út í og hrærðu saman í nokkrar mínútur.  Bætið þá kryddunum út í, garam masala og karrý, salt og pipar, hrærið vel saman og leyfið að malla í nokkrar mínútur við lágan hita.

img_8367Bætið sætu kartöflunum út í og veltið þeim vel upp úr lauk og kryddblöndunni, svo þær verði þaktar í kryddi.   Hellið grænmetissoðinu út í pottinn, hækkið hitann og látið malla í u.þ.b. 15 mínútur eða þar til kartöflurnar eru alveg meirar.

Takið þá súpuna af hitanum og maukið hana með töfrasprota þar til kartöflurnar eru alveg marðar og súpan silkimjúk.

Bætið kókosmjólkinni og sítrónusafanum út  í og hitið að suðu. Smakkið og kryddið með salti og pipar ef þörf er á.

Berið súpuna fram með smá slettu af hreinu jógúrt og gróf saxaðri ferskri steinselju eða kótíander.

Súpa

 

Birt í Grænmetirréttir, Smáréttir | Merkt , , , | Færðu inn athugasemd

Kókos- og hafrakökur

img_8276Er ekki við hæfi að byrja þessa færslu á svolítilli klisju. Klisju sem þó er sönn. Aðventan er nefninlega einn besti tími ársins. Hin síðari ár hef ég notið aðventunnar meira og meira, þó jólin séu enn punkturinn yfir i-ið, eða er það ekki?   Jólatónleikar og jóla-dögurð á góðum veitingastað með fjölskyldu og vinum, tími sem við bökum, eldum, skreytum og njótum saman. Gætum þess bara að láta ekki neyslubrjálæðið ná yfirhöndinni, gleðjumst yfir því smáa, gleðjum aðra og gleðjumst saman.

Hér er uppskrift af stökkum kókos- og hafrakökum sem við í bökum fyrir hver jól og höfum gert í líklega tv0 áratugi.  Eins og allt annað hefur uppskriftin breyst frá þeirri upprunalegu, sykurmagnið minnkað um helming sem dæmi 🙂

Kókos- og hafrakökur, hráefniUppskrift 

 • 100 gr. smjör
 • 3 dl. haframjöl
 • 1,5 dl. kókosmjöl
 • 1 dl. sykur
 • 1 egg
 • 1 tsk. lyftiduft
 • 1 msk. hveiti
 • 150 gr. suðusúkkulaði

Hitið ofninn í 180°C.

Þessar kökur hræri ég alltaf í höndunum.  Deigið er það einfalt í meðhöndlun að það tekur því ekki að taka hrærivélina fram.

kokos-og-hafrakokur-1Bræðið smjörið og hellið því yfir haframjölið og blandið vel saman.  Setjið kókosmjöl og sykri  saman við og hrærið. Bætið þá egginu, lyftidufti og hveiti saman við.

Setjið deigið á plötu með teskeið og gætið þess að hafa þær ekki of þétt því þær renna svolítið út við baksturinn.  Bakið í u.þ.b. 5 mínútur við 180°C.

Kælið kökurnar.

kokos-og-hafrakokur-2Bræðið þá súkkulaði yfir vatnsbaði og pennslið botninn á kökunum með bræddu súkkulaðinu.

Geymið i þéttu vel lokuðu íláti eða plastpoka.  Ég frysti kökurnar og tek þær upp í hæfilegum skömmtum á aðventunni – þannig haldast þær eins og nýbakaðar alla aðventuna.

 

Birt í Bakstur, Jól, Smákökur, Uncategorized | Merkt , , , | Færðu inn athugasemd

Balti kjúklingur í kókos- og möndlusósu

img_8171Löng þögn á þessum miðli er ekki merki um það að ég sé hætt að elda, þó ég hafi ef til vill gert heldur minna af því síðustu vikur en oft áður. Nýtt skemmtilegt og annasamt starf, framkvæmdir í sumarhúsalandi okkar hjóna, dásamleg dótturdóttir og ýmislegt fleira skemmtilegt hefur hins vegar átt hug minn allan og tíminn sem fer í að blogga hefur því átt undir högg að sækja.  Ég hef reyndar íhugað mjög hvort ég ætti að hætta, en eitt af markmiðum mínum í ár var að einfalda líf mitt – sem getur verið svolítið flókið þegar kona á mörg áhugamál og finnst lífið bæði spennandi og skemmtilegt. Ég á líka mjög einlægan aðdáanda í yngri dóttur minni sem finnst það fráleit hugmynd að  ég sleppi því að blogga, svo ég hef tekið ákvörðun um að halda þessu eitthvað áfram. Matreiðsla hefur verið ástríða mín frá unga aldri, ég á mínar fyrstu minningar við eldavélina einungis 5 ára gömul. Elstu uppskriftirnar mínar eru líklega frá því ég var 11-12 ára gömul og páraði niður kökuuppskriftir um leið og ég safnaði servéttum og glansmyndum. Þetta er sumsé áhugamál mitt frá unga aldri – ég hef enga formlega menntun í matreiðslu þó ég hafi sótt nokkur stutt námskeið sem ætluð eru áhugafólki og eigi orðið dágott safn bóka, reyndar svo margar að fjölskyldunni finnst nóg um 🙂  Ég er því típískur amatör með ástríðu – einskonar hallæris nörd – og mun líklega seint að takast að einfalda líf mitt!

En að fyrstu uppskriftinni eftir þessa löngu pásu – Indverskur Balti kjúklingur, ljúfur, ilmandi og dásamlegur. Á uppruna sinn í eldgamalli og hálfhallærislegri indverskri matreiðslubók sem er í safninu mínu.

img_8104Uppskrift

 • 5 msk. möndlur – malaðar
 • 1 msk. kókos
 • 1 lítil dós kókosmjólk (150 ml.)
 • 175 gr. ricotta ostur eða kotasæla
 • 1 1/2 tsk. kóríanderfræ – steytt eða duft
 • 1/2 tsk. chili duft
 • 1 1/2 tsk. fersk rifin engiferrót
 • 2 hvítlauksgeirar marðir
 • 1 tsk. salt
 • 1 msk. olía
 • 300 gr. úrbeinað og skinnlaust kjúklingakjöt, t.d. læri
 • 3 grænar kardimommur
 • 1 lárviðarlauf
 • nokkrir stilkar ferskt steinselja eða kóríander, smátt saxað

balti-kjuklingur-mondlurMalið möndlurnar og blandið kókos saman við. Ristið á þurri heitri pönnu, gætið þess að hræra stöðugt í blöndunni þar til hún fer að taka lit og ilma stórkostlega.  Setjið ristaða möndlu- og kókosblönduna í skál.

balti-kjuklingur-1Bætið kókosmjólk, kotasælu eða ricotta osti, steyttum kórínderfræjum, chilidufti, engiferrót, hvítlauksmauki og salti saman við og blandið vel saman.

balti-kjuklingur-2Skerið kjúklinginn í hæfilega bunnbita. Hitið olíu á pönnu og steikið kjúklingabitana, kardimommubelgina og lárviðarlaufið við háan hita í nokkrar mínútur.  Hellið kókos- og möndlumaukinu saman við og hrærið vel.  Látið malla við lágan hita í u.þ.b. 15 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Veiðið lárviðarlaufið og kardimommubelgina úr og stráið saxaðri steinselju eða kóríander yfir réttinn áður en hann er borin á borð.  Gott er að hafa basmati hrísgrjón, t.d. safran grjón og nan brauð sem meðlæti.

Birt í Indverskir réttir, Kjötréttir | Merkt , , , | Færðu inn athugasemd

Kjúklingur í potti m/bankabyggi, hvítlauk og sætum kartöflum

Kjúklingur í pottiDásamlegt sumar rétt rífleg hálfnað, sumar sem hefur liðið ákaflega hratt við skemmtileg ævintýri. Því þrátt fyrir að það hafi ekki verið mikið að gerast á þessari síðu í sumar þá verður hið sama ekki sagt um líf Vatnsholtsgengisins. Það er uppfullt af skemmtilegum verkefnum og uppákomum með dásamlegu fólki. Svei mér ef þetta er ekki fyrsta helgin síðan í maí sem við erum heima hjá okkur. Matreiðsla okkar í kvöld varð að hæfa 11 mánaða gullmola jafnvel og okkur sem eldri eru. Sú yngsta borðaði svo vel að ég hafði vart undan að skera kartöflur og kjúkling í litla bita fyrir hana og um tíma stóð mér vart á sama hve mikið hún borðaði og velti fyrir mér hvernig þessi litli kroppur kæmi þessu öllu fyrir – en auðvitað kunni hún sitt magamál og gaf sjálf til kynna hvenær hún hafði borðað nægju sína.  Aðrir fjölskyldumeðlimir voru jafnánægðir og sú stutta og því um sannkallaðan fjölskyldurétt að ræða, rétt sem í raun krefst lítillar fyrirhafnar – allt í einum potti, einfalt og gott.

IMG_7963Uppskrift

 • 1 kjúklingur
 • 2-3 msk. eðal kjúklingakrydd
 • 1 bolli bankabygg
 • 3 bollar gott kjúklingasoð
 • 1 heill hvítlaukur
 • nokkrir góðir stilkar af fersku tímían (eða 1 msk. þurrkað)
 • nokkrir góðir stilkar af ferski oreganó (eða 1 msk. þurrkað)
 • 1 sæt kartafla, afhýdd og skorinn í hæfilega bita (munnbita-stærð)

IMG_7964Kryddið kjúklinginn með góðu kjúklingakryddi, sjálf nota ég alltaf eðal kjúklingakryddið frá Pottagöldrum.

Setjið bankabygg í botninn á ofnpotti, hellið góðu kjúklingasoði yfir. IMG_7967 Merjið hvítlauksgeirana undir hnífsblaði og afhýðið þá. Setjið 2 – 3 geira inn í kjúklinginn er restina með bankabygginu í ofnpottinn.

IMG_7979Setjið kjúklinginn ofan á bankabyggið.  Saxið oreganó gróft og takið tímían blöðin af stilkunum, stráið yfir kjúklinginn og bankabyggið.

Bakið við 180°C í 40 mínútur.

IMG_7982Takið pottinn úr ofninum, bætið sætu kartöflunum út í pottinn og bakið áfram undir loki í 15 mínútur.  Takið þá lokið af pottinum, hrærið aðeins í bygginu og kartöflunum, hækkið hitann í 200°C og bakið áfram í 10 mínútur með ofnpottinn opinn til að fá stökka pöru á kjúklinginn.

Berið fram með grænu salati ef vill – en rétturinn stendur vel fyrir sínu einn og sér.

Kjúklingur í potti

Birt í Kjötréttir | Merkt , , , , , , , , , , | Færðu inn athugasemd