Skyr, rjómi og rabarbari á nýstárlegum nótum

Skyr, rjómi og rabarbariÞær eru þó nokkrar uppskriftirnar á þessum vef þar sem rabarbarinn kemur við sögu og í dag bætist enn ein í þann ágæta hóp.

En byrjum á upprifjun, hér fyrir neðan er nokkrar af minum uppáhalds rabarbara uppskriftum;

IMG_6782

Þessi baka er í algjörum sérflokki.   Jarðaber og engifer fara einstaklega vel með rabarbaranum og stökkt lokið er hrein dásemd. Sú rabarbarauppskrift sem ég nota oftast.

Rabarabara og aprikósu chuntney

Eitt besta rabarbarachutney sem ég hef bragðað, mjög gott með ostum og öllum austurlenskum mat. Þurrkaðar aprikósur, chili, engifer og karrý ásamt rabarbaranum sameinast um að kitla bragðlaukana svo um munar.

Rabarabaraskúffukaka

Skúffukaka með rabarabara er fullkomin sunnudagskaka á þessum árstíma – uppskriftin er hér

Rabarbarasíróp

Það er gaman að gera síróp úr rabarbaranum og  enn betra þegar jarðaber eru höfð með, hér er hratið einnig nýtt – engin matarsóun á ferð 🙂  Uppskriftina finnið þið hér

En aftur að uppskrift dagsins.  Skyr, rjómi og rabarbari – innihaldið verður vart þjóðlegra.  Það má baka rabarbarann með góðum fyrirvara, hann geymist í rúma viku í kæliskáp.

Uppskrift

  • 500 gr. rabarabari
  • 1 appelsína, safi og fínt rifinn börkurinn
  • 4-8 msk. gott hunang
  • 1 stór dós vanilluskyr (500 gr.)
  • 1 peli rjómi (2,5 dl.)

RabarabariSkerið rabarbarann í 4-5 cm bita og raðið í eldfast mót. Kreystið safann úr appelsínunni og rífið ysta lagið af berkinum fínt og dreifið jafnt yfir rabarbarann.  Dreipið hunanginu yfir og bakið í 150 C í 45 – 50 mínútur.  Kælið.

Hrærið skyrið vel, þeytið rjómann og blandið skyri og rjóma vel saman.

Setjið rjómaskyrblönduna og rabarabara í nokkrum lögum í falleg glös, skreytið með ferskum fjólum eða öðrum ætum blómum og berið fram. Einfaldur, þjóðlegur, fallegur en umfram allt dásamlega góður eftiréttur.

Skyr, rjómi og rabarbari

 

Birt í Árdegisverður (Brunch), Eftirréttir | Merkt , , | Færðu inn athugasemd

Létt og gómsæt birkifræ- og sítrónukaka

Létt og gómsæt sítrónukakaBakstur þessara helgar er gerður í flýti heima hjá Vatnsholtsgenginu sem ætlar að bruna í gamla kotið sem í gær var loks flutt á sinn rétta stað.  Ársundirbúningi lauk þar með og við tekur vinna við að gera þetta litla, gamla og fremur ljóta hús að nokkurs konar sumarhöll.  Fyrir nokkrum árum áskotnaðist okkur nefninlega dágóður landskiki í einstaklega fallegu landi mjög góðra vinahjóna okkar og fyrir ári síðan keyptum við gamalt sumarhús til flutnings.  Við tók vinna við vegagerð, vatnsleit, uppteypu á grunni undir húsið og fleira skemmtilegt og hefur sú vinna tekið rétt tæpt ár.  í gær var húsið loks flutt á sinn stað af slíkum fagmönnum að ég efaðist ekki eitt augnablik um að þetta myndi takast en aðstæður voru um tíma bæði erfiðar og tvísýnar.  Áræðni, fagmennska og mikill vilji allra sem að komu gerðu það að verkum að húsið hvílir nú á þessum líka fallega stað og Vatnsholtsgengið getur vart beðið eftir fyrstu gestunum.  Þess vegna bakaði ég þessa nýju útgáfu af sítrónuköku til að taka með okkur.  Hugmyndin er frá hinni hollensku Yvette Van Boven sem ég hef nokkrum sinnum áður minst á – hún gefur út snilldarbækur og átti um tíma einn besta veitingastaðinn í Amsterdam – pínulítill staður með  hreint afbragðsmat, sem því miður er búið að loka. En Yvette heldur áfram að elda og er víst orðin einn þekktasti sjónvarpskokkur hollendinga auk þess að skrifa bækur og greinar sem birtar eru um víða veröld.

IMG_0006Uppskrift

  • 200 gr. smjör (við stofuhita)
  • 150 gr. púðusykur
  • 2 egg
  • 1 tsk vanilludropar (heimagerðir eru bestir, uppskrift hér)
  • 2 sítrónur, bæði safi og fínt rifinn börkurinn – bara ysta lagið
  • 2 tsk. birkifræ
  • 200 gr. hveiti
  • 1,5 tsk. lyftiduft
  • 4 eggjahvítur
  • örlítið salt

Glassúr

  • 160 – 200 gr flórsykur
  • 2 – 3 msk. ferskur sítrónusafi

Hitið ofninn í 180°C.

IMG_0013Kakan er bökuð í 22 cm smelluformi, gott er að setja bökunarpappír í botn þess og smyrja hliðarnar vel með smjöri.

Hrærið smjör og púðusykur mjög vel eða þar til blandan er létt og ljós.  Hrærði eggjunum saman við einu í einu.

IMG_0016Bætið vanilludropum, fínt rifnum sítrónuberki og sítrónusafa ásamt birkifræjum saman við blönduna og hrærið vel saman.

Sigtið hveit og lyftiduft út í  deigið og hrærið saman.

IMG_0020Stífþeytið eggjahvíturnar með örlitlu salti og blandið varlega saman þannið að deigð verði loftimikið og létt.

Hellið í velsmurt smelluform og bakið við 180°C í 35 mínútur eða þar til prón sem stungið er í miðju kökunnar kemur hreinn út.

Kælið í 5 mínútur áður en þið takið kökuna úr forminu.

Útbúið glassúr, með því að hræra saman sítrónusafa og sigtuðum flórsykri og hellið yfir kökuna þegar hún hefur kólnað.

Birt í Bakstur | Merkt , , , , | Færðu inn athugasemd

Steiktur sítrónu kjúklingur

SítrónukjúklingurÍ morgun vöknuðum við upp við hvíta jörð, hitastig við frostmark og ansi hressilegt rok  barði rúðurnar. Það er fyrsti dagur sumars samkvæmt dagatalinu og það ku víst vita á gott ef vetur og sumar frýs saman, því ætla ég að trúa. Við fögnuðum þessum fyrsta degi sumars með ansi sumarlegum rétti – dásamlegur kjúklingur, kryddaður með sítrónu, fersku sítrónutímían, smjöri, hvítlauk og hráskinku og munum án nokkurs vafa elda þennan rétt aftur áður en sumarið er allt. Þessi réttur var oft á borðum hjá okkur fyrir margt löngu en ég hef ekki eldað hann í nokkur ár held ég svei mér þá. Hugmyndin er frá vini okkar Jamie Oliver, úr einni af fyrstu bókum hans. Sú bók er ansi snjáð og lúin í matreiðslu-bókahillunni minni – var mikið notuð áður fyrr en bæst hefur hressilega í safnið á síðustu árum svo þessi ágæta bók hefur lítið verið brúkuð um nokkurt skeið.  Uppskriftin hefur að sjálfsögðu þróast og breyst í meðförum mínum á umliðnum árum og er alveg hreint dásamleg eins og áður hefur komið fram.

Hráefni_sítrónukjúklingurUppskrift (fyrir 4-5)  

  • 1 kjúklingur (ca 1,3  – 1,5 kg.)
  • 1 sítróna (lífræn því við notum börkinn 😉
  • 4-5 sneiðar hráskinka (stærri gerðin, annars fleiri)
  • 3-4 msk. ferskt sítrónu-timían (má nota venjulegt)
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 75 gr. smjör (verður að vera við stofuhita)
  • 2 msk. ólifuolía
  • 1 dl. hvítvín (eða vatn)
  • 7-800 gr. kartöflur
  • Salt og pipar

Hitið ofninn í 220°C

Best er að kjúklingurinn sé við stofuhita, skolið hann vel undir rennandi vatni og þerrið. Losið haminn frá frá kjötinu varlega með sleif eða fingrunum,  gætið þess að rífa haminn ekki.

SítrónukjúlliSkerið hráskinkuna í smáa bita, rífið börkinn af sítrónunni með rifjárni, bara gula hlutann. Blandið saman við smjörið, ásamt fínt söxuðu sítrónu-timían og pressuðum hvítlauk.  Kryddið með salti og pipar og hrærið smjörblönduna vel saman. sítrónukjúlli_2Troðið blöndunni undir haminn og strjúkið þannig að hún dreifist nokkuð jafnt og þeki nánast allan kjúklinginn.  Skiljið ca. 1 msk. eftir af smjörblöndunni, hrærið olífuolíu saman við og nuddið kjúklinginn með olífuolíublöndunni, kryddið með pipar og salti.  Skerið sítrónuna í tvennt og setjið hana inn í kjúklinginn.

Setjið kjúklinginn í eldfast mót og krækið leggjunum saman svo fyllingin leki síður úr honum.  Setjið 1 dl. af hvítvíni eða vatni í fatið. Kartöflurnar eru ekki settar í fatið á þessu stigi.  Steikið kjúklinginn í ofninum við 220°C í 20 mínútur.  Skrælið kartöflurnar og skerið í báta, nema ef þegar þið eigið nýuppteknar þá mega þær að sjálfsögðu fara með hýðinu.

sítrónukjúlli_3Takið kjúklinginn úr ofninum.  Smjörið er nú bráðið og hefur blandast hvítvíninu.  Lyftið kjúklingnum upp, setjið kartöflurnar í fatið og veltið þeim upp úr hvítvínssmjörinu.  Setjið kjúklinginn aftur ofan á kartöflurnar og steikið í ofninum í 40 – 50 mínútur.  Soðið sem myndast í fatinu er góð sósa og í raun þarf lítið að gera við það annað en að setja það í sósuskál og bera fram með, nema fyrir allra harðasta sósufólk, þá má sjóða það aðeins niður, bæta smá hvítvíni út í og þykkja með sósujafnara ef þið viljið.

Berið fram með góðu grænu salati.

IMG_9921

p.s. það er ekkert betra, fallegra eða ljúfara en að hafa áhugasaman 1,5 árs aðstoðarkokk í eldhúsinu – sú stutta vill helst fá að sitja upp á eldhúsbekknum og taka þátt í matseldinni. Líklega bragðast maturinn betur með því móti, að minnsta kosti borðar sú stutta aldrei betur en eftir að hafa fengið að taka virkan þátt.
Birt í Kjötréttir | Merkt , , , | Færðu inn athugasemd

Tiramisu

TiramisuÍtalskur og eins og svo margt sem þaðan kemur er þessi eftirréttur hreint dásamlegur – raunar einn af mínum uppáhalds.  Það var raunar töluvert langt síðan ég útbjó þennan eftirrétt þegar ég  fann í tiltekt uppskriftina á gömlum, snjáðum og kámugum pappírsbleðli.  Ég ákvað samstundis að þörf væri á að rifja þessi gömlu kynni upp og var raunar aðeins nerfus um hvort rétturinn stæði undir væntingum.  Það voru svo sannarlega óþarfa áhyggjur, minningar mínar um bragðgæðin voru alveg réttar.  Ég ákvað því að koma uppskriftinni hér inn og henda þessum skítuga, íllafarna pappírsbleðli um leið – nú verður auðveldara fyrir fölskylduna að nálgast uppskriftina. Verði ykkur að góðu 🙂

IMG_9318
Uppskrift

  • 2 dl. sterkt expressó kaffi
  • 2 msk. marsala vín, eða Vin Santo, eða Amaretto (má sleppa)
  • 4 egg
  • 75 gr. sykur
  • 400 gr. mascarpone-ostur, við stofuhita
  • 200 gr. ítalskar lady finger cooker
  • kakó

Lagið sterkt expressó kaffi og látið það kólna, blandið þá víninu saman við ef þið notið það.

Tiramisu-1Þeytið eggjarauður og sykur saman.  Bætið mascarpone ostinum út í eggjablönduna og þeytið vel saman.  Stífþeytið eggjahvíturnar og blandið þeim varlega saman við ostablönduna þannig að blandan verði létt og loftmikil.

tiramisu_2Dýfið ítölsku fingurkökunum í kaffiblönduna og raðið í botninn á fallegu fati eða skál.  Setjið 1/3 – 1/2 af ostablöndunni ofan á – það fer eftir því hve stórt fatið er hvort þið náði 2 eða 3 lögum, en þið raðið til skiptis kökum og ostablöndu.

Geymið í ísskáp í a.m.k. klukkustund áður en borið er fram, en má líka vera mun lengur. og gott getur verið að útbúa réttinn daginn áður en bera á hann fram.  Sigtið kakó yfir fatið/skálina rétt áður en þið berið réttinn fram.  IMG_9420

Birt í Ítalskir réttir, Eftirréttir | Merkt , , , | Færðu inn athugasemd

Lambaframpartur með miðausturlenskum blæ

Miðausturlenskur lambaframparturLamb sem kryddað er með velristuðu og steyttu broddkúmeni og kóríander ilmar ekki bara dásamlega heldur er einnig hreint afbragð. Í kvöld smellti ég heilum framhrygg í pottofn, smurði með smjöri, kryddaði vel og leyfði honum síðan að malla á meðan ég skellti í eina þvottavél og lauk við skattskýrsluna. Talandi um skattskýrslur, magnað hvað það er orðið einfalt og fljótlegt fyrir allt venjulegt launafólk að skila þeim. Ég gleymdi mér reyndar, fékk frest og skilaði samt aðeins of seint – var svo upptekin við að njóta þess að vera til, vona að Hr. Skúli yfirskattamann taki við afsökunarbeiðni minni hér og nú!

En aftur að kvöldmatnum sem var með miðausturlenskum blæ þetta kvöldið.  Kjötið er einfalt að matbúa og getur vart klikkað, meðlætið uppáhalds-sætkartöflusalatið mitt, uppskriftina getur þú nálgast hér og einfalt kúskús með smátt skornum þurrkuðum aprikósum, pistasíuhnetum og ferskri steinselju.

Lambaframpartur - hráefniUppskrift (f. 4)

  • 1 lambaframpartur u.þ.b. 1,4 kg. með beini
  • 30 gr. smjör (mjúkt)
  • 2 hvítlauksgeirar, pressaðir
  • 1 msk. heil kóríander-fræ
  • 1 msk. heil broddkúmen-fræ
  • 2 msk. ferskt tímían eða 2 tsk. þurrkað
  • 1/2 tsk. þurrkuð chilifræ
  • salt og pipar eftir smekk

Hitið ofninn í 180°C.

Mýkið smjörið aðeins ef það er tekið beint úr kæli, en bræðið það ekki alveg.  Smyrjið frampartinn vel með smjörinu.

Ristið kóríander og broddkúmen fræin á heitri þurri pönnu, steytið fræin og blandið öllu kryddinu saman.

IMG_9795 Nuddið kryddblöndunni og pressuðum hvítlauknum vel yfir kjötið.

Setjið kjötið í ofnpott með loki og eldið í 180°C heitum ofninum í 1,5 klst.  Takið á ofnpottinn út, setjið 1-2 bolla af vanti í pottinn, hækkið hitann í 200°C og bakið áfram í 20 – 30 mínútur eða þar til komin er góð skorpa á frampartinn. Sigtið soðið og notið sem sósu ég gaf mér ekki tíma til að sjóða það meira niður, en það var mjög sterkt og bragðgott eins og það kom beint úr pottofninum.

Berið fram með soðinu ásamt sætkartöflusalati og góðu kúskús.

 

Birt í Kjötréttir, Miðausturlenskir réttir | Merkt , , | Færðu inn athugasemd

Krydduð gulrótar og eplakaka

img_8990Vá hvað það er þakklátt að sjá sólina á þessum fallega sunnudegi.  Reyndar kann ég vel að meta skammdegið, finnst dásamlegt að kveikja á nokkrum kertum um leið og ég kem heim úr vinnunni, sem undanfarnar vikur og mánuði hefur verið frekar seint á daginn.  Hver árstíð hefur sinn sjarma og alltaf þegar ný árstíð fer að gera vart við sig hlakka ég óendanlega til, sannfærð um að einmitt þessi tími ársins sé minn uppáhalds. Nú er það vorið sem er um það bil handan við hornið og vá hvað það er þakklátt.  Ég er búin að fara yfir fræsafnið mitt og ætla í dag að útbúa lista yfir fræin sem vantar. Hef um leið lofað sjálfri mér að hafa þetta einfalt í ár, rækta sjálf örfáar tegundir að kryddi og salati, en kaupa aðrar plöntur forræktaðar 🙂  Vonandi tekst mér að standa við það.

Bjartur og fagur sunnudagur eins og þessi í dag kallar á nýbakaða köku. Hér er ein mjög góð, gulrætur, epli, valhnetur og krydd. Hugmyndin er komin frá Honey and Co. uppáhalds veitingastaðnum mínum í London, hvet ykkur til að kíkja til þeirra ef þið eruð á ferðinni þangað, hér er tengill á staðinn.

Uppskrift 

  • 80 gr. valhnetur
  • 2 dl. bragðlítil olía t.d. sólblómaolía
  • 180 gr. sykur
  • 2 egg
  • 100 gr. hveiti
  • 75 gr. heilhveiti
  • 1 tsk. kanill
  • 1 tsk. engifer duft
  • 1 tsk. matarsódi
  • 3 rifnar gulrætur
  • 1 epli, kjarnhreinsað, afhýtt og rifið

Hitið ofninn í 180°C.   Ristið hneturnar i heitum ofninum í u.þ.b. 10 mínútur. Kælið þær og saxið síðan gróft.

gulrotar-og-eplakakaHrærið olíu og sykur vel saman. Bætið eggjunum út í, einu í senn og hrærið saman þar til blandan fer að líkjast majónesi.

Blandið þurrefnunum saman, það er báðum tegundum af hveiti og kryddinu. Blandið saman við eggjahræruna og hrærið saman.  Blandið loks rifnum gulrótum, eplum út í og loks söxuðum valhnetum og hrærið varlega saman.

Hellið deiginu í velsmurt formkökuform (okkar form er 28 cm langt)  og bakað við 180°C í 50 – 55 mínútur eða þar til prjón sem stungið er i miðjuna kemur hreinn út.

Leyfið kökunni að kólna í forminu í 15 – 20 mínútur áður en hún er tekin úr því.

Berið fram með góðu kaffi eða kaldri mjólk.

 

Birt í Bakstur | Merkt , , , , , , | Færðu inn athugasemd

Gúllassúpa

img_8928Kraftmikil, heit og hreint dásamleg eru réttu lýsingaorðin yfir þennan rétt sem nánast sér um sig sjálfur – tja eða svo gott sem.  Þetta er réttur sem ég  upphaflega fann í eld-, eldgömlum Gestgjafa fyrir mörgum árum og ég hef eldað reglulega síðan, en hefur að sjálfsögðu breyst og þróast í gegnum árin. Nú var komið að því að aga eldamennskuna, mæla, skrá og mynda og færa svo yfir á þennan miðil – enda nokkrir sem hafa beðið eftir því að geta nálgast þessa uppskrift. Ungverska paprikukryddið er bragðmikið og svolítið sterkt, gefur súpunni töluvert bit – sem er svo gott á köldum vetrarkvöldum.  Þetta er upplagður réttur til að elda fyrir stóran hóp matargesta.  Þessi réttur hentar vel t.d. þegar haldið er í fjallgöngu eða skíðaferð, þá er um að gera að græja og gera áður en lagt er í hann, fullelda réttinn, kæla vel og hita svo upp þegar komið er heim nú eða taka með á staðinn og hita á prímus úti eftir góðan dag á fjöllum.  Með súpunni er fátt betra en góðar heimabakaðar bollur t.d. þessar hér.

Uppskrift f. 8 manns

  • 1200 gr. nautagúllas
  • 1 stór eða 2 minni laukar
  • 1 rauð paprika
  • 1 græn paprika
  • 600-700 gr.kartöflur
  • 3 gulrætur
  • 2 msk. broddkúmen*
  • 2 msk. ungversk paprika (ef ekki til notið þá venjulegt paprikukrydd og örlítið af chili)
  • 2 vænar greinar ferskt rósmarín (eða 2 msk. þurrkað)
  • 3-4 msk. ferskt oreganó (eða 2-3 tsk. þurrkað)
  • pipar og salt
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 150 gr. rjómaostur
  • 1 dós niðursoðnir tómatar
  • 3 msk. tómatpúrra
  • 1/2 l. sterkt og gott nautasoð (kraftur og vatn)

Skerið lauk og paprikur fremur gróft.  Flysjið kartöflurnar og gulrætur og skerið í hæfilega munnbita.  Saxið ferska kryddið, en geymið aðra rósmarín greinina þar til rétturinn er borinn fram. Setjið í stóran leir- eða pottjárnspott og kryddið með öllu kryddinu. Veltið aðeins til í pottinum svo kryddið nái til allra bitanna.

gullas-supaSetjið hvítlauksgeira, rjómaost, niðursoðna tómata, tómatpúrru og  hluta af nautasoðinu í blandara og maukið vel saman.  Hellið maukinu og afgangnum af soðinu yfir kjötið og grænmetið.  Setjið þétt lok á potinn og bakið í ofni við 180°C í 2 til 2,5 klst.

Leggið fersku rósmarín greinina sem þið geymduð ofan á súpuna áður en hún er borinn fram.

Berið fram með góðum brauðbollum t.d. þessum hér.img_8925-1

* Best er að nota heil fræ, þurrista þau á heitri pönnu og steyta í mortéli.

Birt í Kjötréttir, Súpur, Vinsælar uppskriftir | Merkt , , , | Færðu inn athugasemd

Kryddjurta- og kotasælubollur

Kotasælu- og kryddjurtabollurJá já – Gleðilegt árið kæru vinir og velunnarar þessarar síðu.  Það hefur verið fremur rólegt á þessum miðli, raunar svo rólegt að stundum roðna ég við tilhugsunina. Það eru margar færslur á vinnslustigi, sem stefnt er að ljúka á næstu dögum og vikum.  En hér er ein góð brauðbollu-uppskrift sem Vatnholtsgengið naut þess að snæða sl. sunnudag með dásamlegri gúllassúpu, sem ég er að vinna að færslu um.  Bollur þessar eru ákaflega bragðgóðar og passa vel með góðum súpum eða pottréttum, nú eða bara á morgunverðar- og árdegisverðarborðið með góðu áleggi.

Hráefni í kotasælu- og kryddjurtabollurUppskrift 

  • 4 dl. mjólk
  • 1 bréf þurrger (12 gr.)
  • 1 tsk. hunang
  • 200 gr. kotasæla
  • 1/2 dl. olía
  • 10 dl. brauðhveiti + 1-2 dl til að hnoða upp í deigið eftir hefun
  • væn lúka af ferskum kryddjurtum, t.d. oreganó, tímían, rósmarín og basilika, saxað gróft
  • 1 tsk. salt

Velgið mjólkina í u.þ.b. 37° C, hærið hunangið út í og leysið gerið upp í blöndunni.  Látið standa í 5-7 mín. eða þar til blandan fer að freyða.  Hrærið þá olíu og kotasælu út í.  Bætið hveitinu, kryddjurtunum og saltinu saman við og hnoðið vel saman, deigið er fremur blautt.

kotasaelu-og-kryddjurtabollurLeyfið deiginu að lyfta sér í a.m.k. klukkustund eða þar til það hefur tvöfaldað stærð sína.  Best er að hafa deigið á fremur heitum stað (t.d. með því að setja skálina yfir ílát með heitu vatni í, en gætið þess að skálin standi ekki ofan í vatninu).

Hnoðið smávegis af hveiti saman við deigið, eða þar til þið getið rúllað því í góða svera „pulsu“, skerið í fremur þykkar sneiðar og mótið góðar bollur úr hverri sneið af deiginu.

Setjið bollurnar á bökunarplötu, penslið með mjólk og látið hefast í u.þ.b. 15 mín.

Bakið við 220° C í 10 – 15 mínútur.

img_8928

 

Birt í Árdegisverður (Brunch), Bakstur | Merkt , , | 3 athugasemdir

Vanilludropar – heimagerðir

Þegar ég segi að eitthvað sé einfalt í matargerð þá er stundum hlegið að mér, ég reyni að taka það ekki mjög nærri mér, en núna má sko hlægja.  Það er nefninlega hlægilega einfalt að gera sína eigin vanilludropa og það er um það bil þúsund sinnum betra að nota heimagerða vanilludropa í bakstur og aðra matargerð sem kallar á slíka dropa, en keypta dropa frá ónefndu íslensku átöppunarfyrirtæki.  Svo er líka fáránlega smart að gefa heimagerða dropa í fallegu glasi með einföldu skrauti í jólagjöf, nú eða mæta með slíka flösku í matarboð til góðra vina í staðinn fyrir blómvönd eða bara með blómvendinum.

Litlar fallegar glerflöskur, búsnar vanillustangir, góður vodki og tími er það eina sem þarf – það er tími fyrir dropana til að marenerast vel  og taka gott bragð af vanillunni.  Leikur einn 🙂

Uppskrift 

  • 6 vanillustangir
  • 3-4 dl. vodki

Sótthreinsið* fallegar flöskur – ég notaði 3 flöskur sem hver tekur um 1,2 dl. en nota má bæði minni og stærri flöskur og aðlaga magnið að stærðinni á flöskunum.

Kljúfið vanillustangirnar og skerið þær í tvennt ef flöskurnar eru ekki þeim mun hærri, mikilvægt er að vodkinn fljóti yfir stangirnar í flöskunum.  Stingið 2 vanillustöngum í hverja flösku og hellið vodka þannig að hann fljóti vel yfir stangirnar. 

Fljótlega fer vanillan að lita vökvann og strax á 2. degi má sjá hvernig vökvinn tekur á sig gullinbrúnan lit.  Smátt og smátt verður vökinn dekkri og eftir u.þ.b. 3 vikur er vanilludroparnir tilbúnir til notkunar.  Sjálf fylli ég vodka reglulega á flöskuna án þess að taka upphaflegu stangirnar úr henni, bæti líka vanillu við þegar ég er t.d. að búa til jólaísinn og þarf bara vanillukornin út stönginni – þá sting ég henni út í flöskuna og á þannig alltaf góða vellyktandi vanilludropa – þá bestu sem ég hef nokkurn tíma átt.

Smart jólagjöf fyrir matgæðinga 🙂

Birt í Annað, Vinsælar uppskriftir | Merkt , , , , , , | 3 athugasemdir

Þorskur í tómat- og karrýsósu

Þorskur í tómat og karrýsósu Fljótlegur, fallegur og firnagóður fiskréttur með indverskum blæ. Bragðmikill og ákaflega góður á dimmu desemberkvöldi. Það er þakklátt að uppgötva svona rétti – tala nú ekki um á aðventunni þegar fiskneysla er ef til vill minni en á öðrum árstímum. Á vafri mínu um ansi velskipað matreiðslubókasafn mitt datt ég niður á uppskrift líka þessari hjá vini mínum Hugh Farnley-Whittingstall, breytti henni og stílfærði að smekk og takt við það sem til var í skúffum og skápum. Unglingurinn sem þreytir menntaskóla-jólapróf umlaði af ánægju, betri meðmæli eru vandfundin.

img_8555Uppskrift 

  • 1 msk. olía
  • 1 laukur skorinn fremur smátt
  • 1,5 cm ferskt engifer, rifið á rifjárni
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 1 msk. gott karrý (milt madras)
  • 2 msk. tómatpúrra
  • 150-200 ml. kókosmjólk
  • 1/2 tsk. hunang
  • 700 gr. þorskur, eða annar hvítur fiskur
  • safi úr 1/2 lime (eða sítrónu)
  • salt og pipar

Meðlæti og ofan á réttinn

  • gróft söxuð steinselja eða kóríander
  • smávegis af svörtum laukfræjum (Kalonji)
  • Soðin basmati hrísgjón, eða önnur góð grjón

Hitið olíuna á pönnu yfir fremur lágum hita og látið laukinn malla í u.þ.b. 10 mínútur, eða þar til hann er alveg mjúkur og glær (ekki brúna hann).

tomat-og-karry-fiskurBætið rifnu engifer, hvítlauk og karrý út í og hrærið vel saman.  Bætið þá tómatpúrru,  kókosmjólk og hunangi út í, hærið saman. Kryddið með salti og pipar og látið malla við vægan hita í 10 mínútur.

Skerið fiskinn í bita og setjið út í sósuna, látið malla í 2-3 mínútur, snúið fiskinum og látið malla í aðrar 2-3 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn.  Gætið þess að ofelda fiskinn ekki og munið að hann heldur áfram að eldast eftir að hann er tekinn af hitanum.

Kreystið lime safa yfir pönnuna og blandið varlega saman.

Stráið laukfræjum og gróft skorinni steinselju yfir fiskinn og berið fram með góðum hrísgrjónum.

img_8563

Birt í Fiskur og sjávarfang, Indverskir réttir | Merkt , , , , | Færðu inn athugasemd