Sætkartöflusúpa með indversku ívafi

Sætkartöflu súpa með inversku ívafiBragðmikil og góð súpa á vel við á þessum árstíma.  Dimmt og kalt en oft á tíðum ákaflega fallegt veður.  Tíminn sem það er bæði dimmt er maður leggur af stað í vinnuna á morgnana og líka þegar maður kemur heim á daginn.  Þá er nú ósköp ljúft að kveikja á kertaljósum, hlusta á notalega tónlist og finna hvernig ilmurinn af þessari dásemdarsúpu fyllir íbúðina notalegri angan.

Fyrir þá sem eru vegan, er hér eitthvað fyrir ykkur – sleppið bara að setja jógúrt ofan á hverja skál þegar súpan er borin fram 🙂

Súpa - hráefniUppskrift

 • 2 msk. olífuolía
 • 1 laukur, saxaður fremur smátt
 • 4 hvítlauksgeirar, marðir undir hnífsblaði og saxaðir smátt
 • 4 cm bútur engifer ferskt, rifið á fínu rifjárni
 • 1/2 rautt chili, fræhreinsað og saxað smátt
 • 1 msk. garam masala
 • 2 tsk. madras karrí
 • 2 sætar kartöflur, skrældar og skornar í bita, 2 cm á kant (ca. 700gr)
 • 1 l gott grænmetissoð
 • 1 dós kókosmjólk, 400ml
 • 1 msk. ferskur sítrónusafi
 • Salt og nýmalaður svartur pipar

Ofan á

 • væn msk. af hreinni góðri jógúrt á hverja skál
 • örlítið af grófu söxuðu fersku kóríander eða steinselju

Hitaðu olíuna á góðum súpupotti yfir fremur lágum hita og settu smátt skorinn laukinn út i og látið malla við lágan hita í 10 mín.

img_8362Bættu hvítlauk, engineer, chilli út í og hrærðu saman í nokkrar mínútur.  Bætið þá kryddunum út í, garam masala og karrý, salt og pipar, hrærið vel saman og leyfið að malla í nokkrar mínútur við lágan hita.

img_8367Bætið sætu kartöflunum út í og veltið þeim vel upp úr lauk og kryddblöndunni, svo þær verði þaktar í kryddi.   Hellið grænmetissoðinu út í pottinn, hækkið hitann og látið malla í u.þ.b. 15 mínútur eða þar til kartöflurnar eru alveg meirar.

Takið þá súpuna af hitanum og maukið hana með töfrasprota þar til kartöflurnar eru alveg marðar og súpan silkimjúk.

Bætið kókosmjólkinni og sítrónusafanum út  í og hitið að suðu. Smakkið og kryddið með salti og pipar ef þörf er á.

Berið súpuna fram með smá slettu af hreinu jógúrt og gróf saxaðri ferskri steinselju eða kótíander.

Súpa

 

Birt í Grænmetirréttir, Smáréttir | Merkt , , , | Færðu inn athugasemd

Kókos- og hafrakökur

img_8276Er ekki við hæfi að byrja þessa færslu á svolítilli klisju. Klisju sem þó er sönn. Aðventan er nefninlega einn besti tími ársins. Hin síðari ár hef ég notið aðventunnar meira og meira, þó jólin séu enn punkturinn yfir i-ið, eða er það ekki?   Jólatónleikar og jóla-dögurð á góðum veitingastað með fjölskyldu og vinum, tími sem við bökum, eldum, skreytum og njótum saman. Gætum þess bara að láta ekki neyslubrjálæðið ná yfirhöndinni, gleðjumst yfir því smáa, gleðjum aðra og gleðjumst saman.

Hér er uppskrift af stökkum kókos- og hafrakökum sem við í bökum fyrir hver jól og höfum gert í líklega tv0 áratugi.  Eins og allt annað hefur uppskriftin breyst frá þeirri upprunalegu, sykurmagnið minnkað um helming sem dæmi 🙂

Kókos- og hafrakökur, hráefniUppskrift 

 • 100 gr. smjör
 • 3 dl. haframjöl
 • 1,5 dl. kókosmjöl
 • 1 dl. sykur
 • 1 egg
 • 1 tsk. lyftiduft
 • 1 msk. hveiti
 • 150 gr. suðusúkkulaði

Hitið ofninn í 180°C.

Þessar kökur hræri ég alltaf í höndunum.  Deigið er það einfalt í meðhöndlun að það tekur því ekki að taka hrærivélina fram.

kokos-og-hafrakokur-1Bræðið smjörið og hellið því yfir haframjölið og blandið vel saman.  Setjið kókosmjöl og sykri  saman við og hrærið. Bætið þá egginu, lyftidufti og hveiti saman við.

Setjið deigið á plötu með teskeið og gætið þess að hafa þær ekki of þétt því þær renna svolítið út við baksturinn.  Bakið í u.þ.b. 5 mínútur við 180°C.

Kælið kökurnar.

kokos-og-hafrakokur-2Bræðið þá súkkulaði yfir vatnsbaði og pennslið botninn á kökunum með bræddu súkkulaðinu.

Geymið i þéttu vel lokuðu íláti eða plastpoka.  Ég frysti kökurnar og tek þær upp í hæfilegum skömmtum á aðventunni – þannig haldast þær eins og nýbakaðar alla aðventuna.

 

Birt í Bakstur, Jól, Smákökur, Uncategorized | Merkt , , , | Færðu inn athugasemd

Balti kjúklingur í kókos- og möndlusósu

img_8171Löng þögn á þessum miðli er ekki merki um það að ég sé hætt að elda, þó ég hafi ef til vill gert heldur minna af því síðustu vikur en oft áður. Nýtt skemmtilegt og annasamt starf, framkvæmdir í sumarhúsalandi okkar hjóna, dásamleg dótturdóttir og ýmislegt fleira skemmtilegt hefur hins vegar átt hug minn allan og tíminn sem fer í að blogga hefur því átt undir högg að sækja.  Ég hef reyndar íhugað mjög hvort ég ætti að hætta, en eitt af markmiðum mínum í ár var að einfalda líf mitt – sem getur verið svolítið flókið þegar kona á mörg áhugamál og finnst lífið bæði spennandi og skemmtilegt. Ég á líka mjög einlægan aðdáanda í yngri dóttur minni sem finnst það fráleit hugmynd að  ég sleppi því að blogga, svo ég hef tekið ákvörðun um að halda þessu eitthvað áfram. Matreiðsla hefur verið ástríða mín frá unga aldri, ég á mínar fyrstu minningar við eldavélina einungis 5 ára gömul. Elstu uppskriftirnar mínar eru líklega frá því ég var 11-12 ára gömul og páraði niður kökuuppskriftir um leið og ég safnaði servéttum og glansmyndum. Þetta er sumsé áhugamál mitt frá unga aldri – ég hef enga formlega menntun í matreiðslu þó ég hafi sótt nokkur stutt námskeið sem ætluð eru áhugafólki og eigi orðið dágott safn bóka, reyndar svo margar að fjölskyldunni finnst nóg um 🙂  Ég er því típískur amatör með ástríðu – einskonar hallæris nörd – og mun líklega seint að takast að einfalda líf mitt!

En að fyrstu uppskriftinni eftir þessa löngu pásu – Indverskur Balti kjúklingur, ljúfur, ilmandi og dásamlegur. Á uppruna sinn í eldgamalli og hálfhallærislegri indverskri matreiðslubók sem er í safninu mínu.

img_8104Uppskrift

 • 5 msk. möndlur – malaðar
 • 1 msk. kókos
 • 1 lítil dós kókosmjólk (150 ml.)
 • 175 gr. ricotta ostur eða kotasæla
 • 1 1/2 tsk. kóríanderfræ – steytt eða duft
 • 1/2 tsk. chili duft
 • 1 1/2 tsk. fersk rifin engiferrót
 • 2 hvítlauksgeirar marðir
 • 1 tsk. salt
 • 1 msk. olía
 • 300 gr. úrbeinað og skinnlaust kjúklingakjöt, t.d. læri
 • 3 grænar kardimommur
 • 1 lárviðarlauf
 • nokkrir stilkar ferskt steinselja eða kóríander, smátt saxað

balti-kjuklingur-mondlurMalið möndlurnar og blandið kókos saman við. Ristið á þurri heitri pönnu, gætið þess að hræra stöðugt í blöndunni þar til hún fer að taka lit og ilma stórkostlega.  Setjið ristaða möndlu- og kókosblönduna í skál.

balti-kjuklingur-1Bætið kókosmjólk, kotasælu eða ricotta osti, steyttum kórínderfræjum, chilidufti, engiferrót, hvítlauksmauki og salti saman við og blandið vel saman.

balti-kjuklingur-2Skerið kjúklinginn í hæfilega bunnbita. Hitið olíu á pönnu og steikið kjúklingabitana, kardimommubelgina og lárviðarlaufið við háan hita í nokkrar mínútur.  Hellið kókos- og möndlumaukinu saman við og hrærið vel.  Látið malla við lágan hita í u.þ.b. 15 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Veiðið lárviðarlaufið og kardimommubelgina úr og stráið saxaðri steinselju eða kóríander yfir réttinn áður en hann er borin á borð.  Gott er að hafa basmati hrísgrjón, t.d. safran grjón og nan brauð sem meðlæti.

Birt í Indverskir réttir, Kjötréttir | Merkt , , , | Færðu inn athugasemd

Kjúklingur í potti m/bankabyggi, hvítlauk og sætum kartöflum

Kjúklingur í pottiDásamlegt sumar rétt rífleg hálfnað, sumar sem hefur liðið ákaflega hratt við skemmtileg ævintýri. Því þrátt fyrir að það hafi ekki verið mikið að gerast á þessari síðu í sumar þá verður hið sama ekki sagt um líf Vatnsholtsgengisins. Það er uppfullt af skemmtilegum verkefnum og uppákomum með dásamlegu fólki. Svei mér ef þetta er ekki fyrsta helgin síðan í maí sem við erum heima hjá okkur. Matreiðsla okkar í kvöld varð að hæfa 11 mánaða gullmola jafnvel og okkur sem eldri eru. Sú yngsta borðaði svo vel að ég hafði vart undan að skera kartöflur og kjúkling í litla bita fyrir hana og um tíma stóð mér vart á sama hve mikið hún borðaði og velti fyrir mér hvernig þessi litli kroppur kæmi þessu öllu fyrir – en auðvitað kunni hún sitt magamál og gaf sjálf til kynna hvenær hún hafði borðað nægju sína.  Aðrir fjölskyldumeðlimir voru jafnánægðir og sú stutta og því um sannkallaðan fjölskyldurétt að ræða, rétt sem í raun krefst lítillar fyrirhafnar – allt í einum potti, einfalt og gott.

IMG_7963Uppskrift

 • 1 kjúklingur
 • 2-3 msk. eðal kjúklingakrydd
 • 1 bolli bankabygg
 • 3 bollar gott kjúklingasoð
 • 1 heill hvítlaukur
 • nokkrir góðir stilkar af fersku tímían (eða 1 msk. þurrkað)
 • nokkrir góðir stilkar af ferski oreganó (eða 1 msk. þurrkað)
 • 1 sæt kartafla, afhýdd og skorinn í hæfilega bita (munnbita-stærð)

IMG_7964Kryddið kjúklinginn með góðu kjúklingakryddi, sjálf nota ég alltaf eðal kjúklingakryddið frá Pottagöldrum.

Setjið bankabygg í botninn á ofnpotti, hellið góðu kjúklingasoði yfir. IMG_7967 Merjið hvítlauksgeirana undir hnífsblaði og afhýðið þá. Setjið 2 – 3 geira inn í kjúklinginn er restina með bankabygginu í ofnpottinn.

IMG_7979Setjið kjúklinginn ofan á bankabyggið.  Saxið oreganó gróft og takið tímían blöðin af stilkunum, stráið yfir kjúklinginn og bankabyggið.

Bakið við 180°C í 40 mínútur.

IMG_7982Takið pottinn úr ofninum, bætið sætu kartöflunum út í pottinn og bakið áfram undir loki í 15 mínútur.  Takið þá lokið af pottinum, hrærið aðeins í bygginu og kartöflunum, hækkið hitann í 200°C og bakið áfram í 10 mínútur með ofnpottinn opinn til að fá stökka pöru á kjúklinginn.

Berið fram með grænu salati ef vill – en rétturinn stendur vel fyrir sínu einn og sér.

Kjúklingur í potti

Birt í Kjötréttir | Merkt , , , , , , , , , , | Færðu inn athugasemd

Grillaður lax á viðarplanka með melónusalsa

IMG_7719Maríulaxinn minn verðskuldar svo sannarlega tvær færslur. Eins og fram kom í fyrri færslunni þá hefði ég gjarnan viljað gera 25 rétti úr þessari dásemd, enda fallegasti lax sem ég hef augum litið og bragðgæðin alveg í takt við útlitið 🙂

Réttirnir tveir sem verðskulduðu Maríulaxinn eru ákaflega ólíkir, en hvor öðrum betri.  Sítrusgrafni laxinn sem ég skrifaði um í gær í þessari færslu hér er hrein dásemd og þessi uppskrift sem hér birtist er ekki síðri þó ólík sé. Reyndar spilar börkur af sítrusávöxtum stóran þátt í báðum uppskriftum, enda má segja að sítrónur geri nánast allt bæði fallegra og betra, þess vegna byrja ég nánast hvern dag á að drekka 1/2 vatnsglas með nýkreistum safa úr hálfri sítrónu út í. Og já elsku Gunna vinkona, ég passa vel að drekka súran vökvann í einum teig, drekka annað glas af hreinu vatni strax á eftir og bursta ekki tennurnar fyrr en þessi athöfn er yfirstaðinn svo sýran skemmi ekki tennurnar 🙂

Þessa uppskrift má aðveldlega heimfæra upp á silung líka ef þið liggið ekki á villtum lax, svo ekki sé minnst á Maríulax 🙂    Ég hlakka óendanlega til veiðiferðar okkar stelpnanna í ár sem í þetta sinn verður í Langá. Ég krossa fingur þegar ég hugsa um mögulega veiði sem ég veit þó af töluverðri reynslu að er ekki alveg gefið – en það leikur enginn vafi á því að við munum skemmta okkur konunglega – hamingjustundirnar við árbakkann verða engu líkar og innistæðan í minningarbankanum mun vaxa til muna.

plankagrillaður lax og melónusalsa - hráefniUppskrift (f.4) 

 • 1 viðarplanki (ómeðhöndlaður viður sem ætlaður er til að grilla á t.d. sítrusviður)
 • 1 laxaflak, ríflega 1 kg.
 • 1/2 rauður chili, mjög smátt saxað
 • rifinn börkur af 1/2 lime (lífrænt)
 • rífinn börkur af 1/2 sítrónu (lífræn)
 • 2 tsk. sesamfræ
 • olífuolía
 • gott sjávarsalt og nýmalaður pipar

Melónusalsa

 • 1/2 vatnsmelóna
 • 1 mangó
 • 1/2 rauður chili
 •  8-10 strá af graslauk
 • 75 gr. fetakubbur
 • 1 lime, safi
 • 1 msk. hlynsíróp
 • örlítið salt og nýmalaður pipar

Byrjið á að leggja viðarplankann í bleyti í lágmark 30 mínútur.

Melónusalsa; skerið melónuna í litla bita og hreinsið steinana úr ef þörf er á.

MelonusalsaSkerið mangó í litla bita u.þ.b. sömu stærð og melónubitarnir.

Saxið chili mjög smátt og graslaukinn fremur smátt.  Fetakubburinn er skorinn í bita.  Hrærið limesafa og hlynsírópi saman þar til sírópið er uppleyst.  Blandið öllu saman, saltið og piprið.

Plankagrillaður lax;  Lax - flakaðurVið byrjuðum á að flaka þennan fallega Maríulax.

Gætið þess að grillið sé miðlungsheitt.  Takið viðarplankann úr bleyti eftir að lágmarki 30 mínútur, leggið laxaflakið á plankann, penslið flakið með góðri olíu. Rífið börkinn af sítrusávöxtunum yfir flakið, stráið smátt söxuðum rauðum chili yfir, kryddið með salti og pipar og loks er sesamfræum stráð yfir flakið.

plankagrillaður laxSetjið plankann á grillið og lokið grillinu. Gætið þess að grillið sé ekki of heitt, þá getur kviknað í plankanum – fylgist vel með, plankinn á að reykja vel, en ekki loga 😉

Grillið í 10 – 12 mínútur eða þar til þið teljið að flakið sé næstum því tilbúið.  Takið þá plankann af grillinu og berið fram með melónusalsa og ef vill einföldu grænu salati og karöflum.

 

Birt í Fiskur og sjávarfang, Grillréttir, Uncategorized | Merkt , , , , , , , , | Færðu inn athugasemd

Sítrus-grafinn lax

IMG_7764Sumarið er tíminn…..  til að njóta, veiða, þeysa um á nýja hjólinu í spandex buxum með rassapúða, ganga á mörg fjöll, búa til veg í sveitinni, finna vatn, byggja sumarhús, elda góðan mat, róta í moldinni, rækta blóm, grænmeti, kryddjurtir en fyrst og síðast rækta fjölskyldu og vini. Allt þetta og meira til hyggst ég stunda af mikilli alúð í sumar.

Síðasta sumar fór ég í eina af hinum margrómuðu laxveiðiferðum með veiðihópnum mínum. Það besta við þessar ferðir er vinskapurinn, útiveran, maturinn og hamingjustundirnar við árbakkann – eða það taldi ég mér alltaf trú um allt þar til ég loksins fékk Maríulaxinn í fyrra. IMG_2480Þá fyrst fékk ég að vita hvað er best við þessar veiðiferðir – þvílíkt kikk, þvílík hamingja og þvílíkur lax. Ég hef aldrei á ævinni séð jafn fallega hrygnu, 64 cm og 2.850 gr. veidd í dásemdarhyl í Eysti Rangá. IMG_2488Ég naut leiðsagnar besta veiðileiðsögumaður sem ég hef nokkurn tíma haft, hann gætti þess að leiðbeina á þann hátt að sjálfstraustið hélt allan tímann, veitti stuðning og leiðsögn án þess að grípa inn í þegar kappið var alveg að fara með mig, þá er mikilvægt að draga andann djúpt og bregðast rétt við – vá þvílík upplifun.

Það sem ég vandaði mig síðan við að velja hvernig laxinn var eldaður. Ég las mjög margar uppskriftir og langaði helst að gera 25 rétti úr þessum eina fisk.  En loks lét ég verða að því að afþýða og flaka dásemdina, annað flakið var grillað á viðarplanka sem ég mun gera skil í næstu færslu.  Hitt flakið var sítrusgrafið – alger snilld, borið fram sem forréttur með góðu brauði og einfaldri jógúrt sósu.  Nú vona ég bara að ég nái að veiða nokkra laxa í sumar svo ég geti endurtekið þessa uppskrift og haldið áfram með tilraunirnar 23 sem ég á eftir að framkvæma.

Sítrusgrafinn lax - hráefniUppskrift 

 • 1 laxaflak u.þ.b. 1 kg.
 • 100 gr. gróft sjávarsalt
 • 75 gr. hrásykur
 • rifinn börkur af 1/2 lime (lífrænt)
 • rifinn börkur af 1/2 sítrónu (lífræn)
 • rifinn börkur af 1/2 appelsínu (lífræn)

Blandið salti og sykri saman.

Sitrusgrafinn lax 1Hreinsið og þerrið flakið.  Ég reif börkinn beint yfir flakið, en það má að sálfsögðu blanda berkinum saman við salt og sykurblönduna.  Stráið salt og sykurblöndunni yfir allt flakið þannig að blandan þeki allt flakið vel.

Sítrusgrafinn lax 2Vefjið í plastfilmu, setjið á fat og inn í kæli í 24 klst.  Margar leiðbeiningar segja að maður eigi að fergja flakið, en ég vafði það bara vel inn og lét það duga með góðum árangri.

Sítrusgrafinn laxEftir sólahring er flakið tekið úr kæli og hreinsað og þerrað vel.  Grafinn lax er unnt að geyma í kæli í allt að 2 vikur, en þessi var svo góður að hann var löngu búin áður en sá tími kom 🙂

Við bárum hann fram skorinn í örþunnar sneiðar, sem við settum ofan á gott súrdeigsbrauð, mæli með bragðmildu brauði t.d. bagettu, einfaldri jógúrtsósu eða sýrðum rjóma, skreytt með ferskum kryddjurtum og ætum blómum.Sítrusgrafinn lax

 

Birt í Fiskur og sjávarfang, Forréttir, Smáréttir | Merkt , , , | Ein athugasemd

Kúrbítskaka með rúsínum og pistasíuhnetum

IMG_7665Sunnudagskakan þennan sunnudaginn er ekki alveg hefðbundin en hreint afbragð.  Innihaldið  minnir á miðjarðarhafið. Síðustu daga og vikur hefur mig dreymt um sól og suðrænar strendur. Það lítur ekki út fyrir að ég láti þann draum rætast þetta árið, en ég mun örugglega smella aftur í þessa köku mjög fljótlega, svo góð er hún.

IMG_7625Uppskrift

 • 60 gr. pistasíuhnetur
 • 200 gr. hveiti
 • 2 tsk. lyftiduft
 • 1 tsk. engifer-duft
 • 1/2 tsk. stjörnuanis-duft
 • 1/2 tsk. salt
 • 2 dl. olífuolía
 • 150 gr. hrásykur
 • 2 egg
 • 60 gr. ljósar rúsínur
 • 1 kúrbítur (u.þ.b. 300 gr.)
 • Börkur af einni sítrónu (bara ysta lagið)

Hitið ofninn í 180°C.  Þegar ofninn er orðinn heitur ristið þá pistasíuhneturnar í ofninum í 5 mínútur. Kælið.img_6429Rífið kúrbítinn á rifjárni. Blandið hveiti, lyftidufti og kryddi saman í skál, setjið hneturnar saman við.

Hrærið olífuolíu og sykri vel saman, bætið eggjunum saman við einu í senn og hrærið vel þar til blandan verður ljós og létt. Blandið þá restinni af hráefnunum saman við og hrærið varlega saman – best finnst mér að blanda þessu saman með sleikjunni.

IMG_7634Sett í velsmurt formkökuform (okkar form er 28 cm langt)  og bakað við 180°C í 50 – 55 mínútur eða þar til prjón sem stungið er i miðjuna kemur hreinn út.

Leyfið kökunni að kólna í forminu í 15 – 20 mínútur áður en hún er tekin úr því. img_6427

Birt í Árdegisverður (Brunch), Bakstur | Merkt , , , , , | Færðu inn athugasemd

Bökuð sítrónuostakaka með kókosbotni og berjacompote

Sítrónuostakaka með kókosbotniMaí er afmælismánuður hjá tengdafólkinu mínu, þau eru ekkert mikið að flækja hlutina og  eiga öll afmæli í maí. Mágur minn er 2. maí, tengdamamma 13. maí, tengdapabbi 15. maí og restina rekur elskulegur eiginmaður minn sem á afmæli 23. maí.  Það hefur verið fjör á Hrannargötunni, þar sem þau bjuggu í den, í maí hjá þessari fallegu fjögurra manna fjölskyldu. Fjörið heldur áfram hjá Vatnsholtsgenginu sem heldur að sjálfsögðu mikið upp á maí mánuð – afmælismánuðinn mikla, þegar björt vorkvöld, sólin, græna grasið og blómstrandi fjólur og fíflar minna okkur á hve þessi árstími er stórkostlegur. Þessa dásemd bakaði ég fyrir eiginmanninn í ár og bar fram sem eftirrétt við góðar undirtektir.

Hráefni - sítrónuostakakaUppskrift

Botn 

 • 50 gr. smjör
 • 100 gr. kókosmjöl
 • 50 gr. sykur
 • 1 egg

Fylling

 • 500 gr. rjómaostur
 • 100 gr. sýrður rjómi (18%)
 • 130 gr. sykur
 • rifinn börkur af 1 sítrónu
 • 4 egg
 • 50 gr. hveiti
 • 1 msk. sítrónusafi

Berjacompote

 • 300 gr. frosin hindber
 • 120 gr. sykur
 • 1/2 sítróna, skorin í  tvennt
 • 100 gr. fersk ber, bláber, hindber eða jarðarber

ATH að mikilvægt er að öll innihaldaefnin í fyllinguna séu við herbergishita þegar þið byrjið á bakstrinum. Það er því best að taka rjómaostinn, sýrða rjómann og eggin út úr ísskápnum um það bil 30 mínútum áður en hafist er handa. Þá þarf að kæla kökuna eftir bakstur í að lágmarki 4 klst. í kæliskáp.

Hitið ofninn í 180°C.  Best er að nota smelluform 23cm, setja smjörpappír í botninn og smyrja formið með bragðlítilli olíu eða bræddu smjöri.

kókosbotnBotninn:  Bræðið smjörið og hrærið kókosmjöli, sykri og eggi saman við þar til allt er vel samlagað. Setjið deigið í smelluformið og bakið við 180°C í 10 mínútur eða þar til kókosinn tekur á sig gylltan lit. Látið kólna í forminu á meðan fyllingin er útbúin.

Fylling:  Hrærið rjómaost, sýrðan rjóma, sykur og sítrónuberki saman og athugið að nota ekki þeytara heldur K-ið á hrærivélinni því við viljum alls ekki fá mikið loft í fyllinguna.  Bætið eggjunum saman við einu í senn, þá sítrónusafanum og að lokum er hveitinu hrært saman við.  Hellið yfir kókosbotninn sem nú hefur kólnað svolítið. Bakið í 30 – 35 mínútur eða þar til kakan hefur fengið á sig ljós-gylltan lit og aðeins risið í forminu. Kælið í smá stund á borði, en setjið síðan í ísskáp og kælið í 4 klst.að lágmarki, má vera lengur.

IMG_7554Berjacompote: Setjið frosin hindber, sykur og sítrónu í pott og hitið að suðu.  Látið sjóða við háan hita í nokkrar mínútur eða þar til blandan þykknar aðeins.  Takið af hitanum, veiðið sítrónubátana upp úr og kreistið allan safa úr þeim yfir berin.  Kælið.

IMG_7597Hrærið fersku berunum saman við kalda hindberjablönduna rétt áður en berjacompotið er sett ofan á kalda kökuna og hún borin fram.

IMG_7613

 

 

 

 

 

Birt í Bakstur, Eftirréttir, Uncategorized | Merkt , , , , , | Færðu inn athugasemd

Hnetu- og aprikósufyllt lambalæri

Hnetu- og aprikosufyllt lambalaeriMiðausturlenskur ilmur fyllti eldhúsið okkar í gær þegar við héldum upp á 84 ára afmælisdag elskulegrar tengdamóður minnar með góðu fólki. Ákveðið var að endurtaka eldhúsgaldra sem fyrst voru reyndir fyrir vestan um páskana og lukkuðust svo vel að nokkrir þeirra yfir 20 sem nutu með okkur kölluðu ákaft eftir uppskrift og nánari lýsingu, svo hér er hún.  Tengdasonur minn átti heiðurinn af páskalambinu sem ég lék síðan eftir í gær með ágætis árangri. Upphafleg uppskrift kom úr miðausturlenskri bók sem hann hefur í safni sínu.  Fyrir vestan úrbeinuðum við lærið sjálf – ég hef áður lýst einfaldri aðferð við að úrbeina hér.  Urbeinad lambalaeri Kjothollin

Í þetta sinn rölti ég nú bara til kjötkaupmannsins sem er í þarnæstu götu við okkur, sá valdi fallegt læri og úrbeinaði fyrir framan mig, það tók hann svona 3-5 mínútur en ég hefði örugglega verið að lágmarki fimm sinnum lengur að framkvæma þann gjörning.  Kjöthöllin í Skipholti fær toppeinkun fyrir þjónustu, gæði og vöruval þegar kemur að kjöti.

IMG_7476Uppskrift

 • 1 lambalæri um það bil 2 – 2,5 kg.  úrbeinað og útflatt (butterflied)
 • olífuolía
 • salt og pipar

Fylling

 • 40 gr. gott brauðrasp (frábært að þurrka afganga af góðu brauði og raspa niður)
 • 40-50 gr. furuhnetur, léttristaðar
 • 40-50 gr. pistasíuhnetur, gróft saxaðar eða marðar gróft í mortéli
 • 100 gr. þurkaðar aprikósur, saxaðar fremur smátt
 • 2 hvítlauksgeirar marðir undir hnífsblaði og saxaðir smátt
 • hnefafylli af ferskri flatblaðasteinseljur, smátt söxuð
 • börkur af 1 sítrónu
 • 1/2 tsk. broddkúmen
 • 1/2 tsk. kóríander
 • smá salt og pipar

Steytt kryddEins og áður finnst mér langbest að nota heil fræ af broddkúmen og kóríander, rista þau aðeins á þurri pönnu og steyta í mortéli.  Kryddbragðið verður svo miklu dýpra, ferskara og betra – en að sjálfsögðu má nota duft með góðum árangri  – þetta er bara mín sérviska sem ég hef þörf á að deila með ykkur 🙂

Hitið ofninn í 180°C.  Lambið þarf að ná stofuhita áður en byrjað er að elda það.

Blandið öllu sem á að fara í fyllinguna saman í skál.

Fyllt lambalæriNuddið lambið með olífuolíu og saltið og piprið.  Leggið það flatt með sárið að ykkur og dreifið fyllingunni vel yfir það. Rúllið því saman á lengdina og bindið með eldhúsbandi.

Hitið olífuolíu á stórri steikarpönnu og steikið allar hliðar lærisins á mjög háum hita.  Færið lærið yfir í eldfast form og steikið í ofninum við 180°C í 40-60 mínútur.

Takið lambið úr ofninum, hyljið það með álpappír og látið það hvíla í u.þ.b. 15 mínútur áður en það er borið fram.

Í gær bar ég lærið fram með sætkartöflusalati samkvæmt þessari uppskrift hér, kúskús sem kryddað var með sítrónu, steinselju, pistasíuhnetum og þurkuðum aprikósum og einfaldri jógúrtsósu með broddkúmeni og kóríander, sítrónusafa og hlynsírópi – gleymdi alveg að mæla hlutföll en mun standa mig betur næst og skrá og setja inn við tækifæri.

IMG_7520

 

 

 

Birt í Kjötréttir, Miðausturlenskir réttir | Merkt , , , , , | Færðu inn athugasemd

Sykurlaus súkkulaðibúðingur með engifer

Sykurlaus súkkulaðibúðingur með engiferÞað fer ekki fram hjá nokkrum sem á annað borð fylgist með matarmenningu að á undanförnum misserum skipar hollusta í matargerð veglegri sess en áður. Sykurinnihald hefur minnkað til muna og uppskriftir af sykurlausum eftirréttum eru mun aðgengilegri.  Þessi uppskrift er ein þeirra, ég á að minnsta kosti sex nýlegar matreiðslubækur þar sem bönnum, avakadó, kakó og döðlum er umbreytt í dásemdarbúðing. Þessi er allt í senn; dásamlega einfaldur, ofboðslega góður og brjálæðislega hollur :-)  Segja má að uppskriftin sé  innblásin frá Hugh Farnley-Whittingstall, Jamie Oliver, Lorraine Pascale, Ellu Woodward og Nigellu Lawson, útkoman getur vart klikkað :-)

IMG_7381Uppskrift (fyrir 4) 

 • 2 avakadó, velþroskuð
 • 2 bananar, velþroskaðir
 • 120 gr. mjúkar steinlausar döðlur
 • 40 gr. kakóduft
 • 1 tsk. ferskt rifið engifer

súkkulaðibúðingurSetjið allt  innihaldið í matvinnsluvél og maukið saman, athugið að engiferið þarf að vera fínt rifið.

Það er best að borða þennan búðing innan 24 klst. frá því hann er búinn til, hann þarf ekki að standa í ísskáp áður en hann er borinn fram en það er ekki verra að kæla hann í smá stund.

Skiptið í 4 fallegar skálar og berið fram t.d. með ferskum berum og/eða rjóma, en hann getur alveg staðið einn og sér.

 

 

Birt í Eftirréttir, Vinsælar uppskriftir | Merkt , , , , , , , , , | Færðu inn athugasemd