Flatkökur með reyktum laxi og klettakáli

IMG_7370Þessi eru svolítið uppáhalds, einföld, fljótleg og passar við hin ýmsu tækifæri. Við hjónin göngum töluvert á fjöll og í slíkum ferðum er mikilvægt að hafa holt og gott nesti – sérílagi í lengri ferðum sem reyna á úthald og orku. Flatkökur með hangikjöti er klassík sem flestir þekkja, ég var orðin svolítið leið á þeim en finnst flatkökurnar þó alveg ómissandi hluti af nestisflórunni í fjallgöngunum. Þessi samsetning varð til fyrir einhverja gönguferðina fyrir nokkrum árum og hefur fylgt mér síðan, ekki bara í göngur heldur við hin ýmsu tækifæri. Þær eru smart snarl með freyðivíni eða kokteil,  hafa hitt í mark á löngu úthaldi í karphúsinu þegar samninganefndin var alveg að missa húmorinn, þær fylgdu mér á topp Hvannadalshnjúks fyrir rétt tæpu ári og eru frábær hluti af smáréttum í hinum ýmsu boðum. Get því heilshugar mælt með þessari samsetningu við hin ýmsu tækifæri.

IMG_7338Uppskrift

 • Flatkökur
 • Rjómaostur
 • Reyktur lax
 • Klettakál
 • Nýmalaður svartur pipar

FlatkokurSkerið reykta laxinn í þunnar sneiðar. Smyrjið flatkökurnar með rjómaosti, raðið laxasneiðum ofan á, stráið klettakáli yfir laxinn og piprið aðeins yfir með nýmöluðum pipar.  Skerið í fallegar sneiðar  og raðið á fallegt fat ef þið ætlið að bera þetta fram sem smárétt eða brjótið saman, setjið poka og í nestisboxið fyrir góðar gönguferðir.

Birt í Annað, Smáréttir | Merkt , , , , | Færðu inn athugasemd

B50 – ginkokteill

 Um  nokkurt skeið hefur staðið til að smella í færslu um uppáhalds-kokteilinn minn.  Ég hef fengið nokkrar spurningar um innihaldið og veit að það eru margir sem bíða eftir þessari færslu. Loks er hún hér en fyrst verð ég aðeins að fara yfir tilurð þessa drykkjar – sú saga er nefninlega alveg hreint mögnuð og ég mun lifa á minningunum um ókomna tíð svo mikið er víst.

Í lok síðasta sumars átti ég stórafmæli. Af ýmsum góðum og gildum ástæðum ákvað ég að það væri betra að bíða í eitt ár með hátíðarhöld og í samráði við fjölskylduna var það ákveðið. Ég stóð við mitt, hafði ekkert sérstakt á prjónunum þennan dag, annað en að mæta í vinnuna og ef til vill að fara út að borða á rólegan og huggulegan stað með fjölskyldunni sem hafði 10 dögum áður stækkað svo um munaði þegar fyrsta og fallegasta ömmustelpan mín kom í heiminn.

Það sem ég vissi hins vegar ekki var að fjölskylda mín, vinir, vinnufélagar og meira að segja borgarstjórinn í Reykjavík höfðu eitthvað annað á prjónunum. Ég mætti til vinnu upp úr klukkan 9 að morgni afmælisdagsins, á vinnufund sem borgarstjóri stýrði. Ég vonaði svo heitt að enginn vissi af þessum afmælisdegi og varð ákaflega létt þegar ég mætti og allt leit út fyrir að mér hefði orðið að ósk minni.  Fundurinn var settur á hefðbundinn hátt og þegar Dagur var búinn  að fara yfir dagskrá og fyrirkomulag dagsins, bað hann fundarmenn um að hinkra aðeins, skaust afsýðis og birtist síðan syngjandi með blöðrur og afmælisköku og kerti…. uff og ég sem nokkrum mínútum fyrr hafði prísað mig sæla yfir því að enginn vissi af þessum annars stórkostlega degi 🙂

Afmæli-aEn þetta var bara byrjunin því fjölmargt samstarfsfólk mitt arkaði töluvert langa leið í hádeginu og lét kalla mig út af fundinum og alla leið út á tröppur.  Þar stóðu þau svo stórkostleg og sungu fyrir mig þar sem ég stóð á tröppunum á Höfða þar sem vinnufundurinn var haldinn og færðu mér blóm og dásemdargjöf – þvílík stund, magnað móment verð ég að játa.

afmæli2Og þar með var óvæntum og skemmtilegum uppákomum ekki lokið. Eftir vinnu hjólaði ég heim, með blóm og pakka á bögglaberanum, í háum hælum og með hjálm, já frekar smart held ég bara. Ég bý við fáfarna götu ekki langt frá fundarstaðnum og þegar ég hjólaði upp göngustíginn sem er við enda götunnar sá ég að það var undarlega mörgum bílum lagt í götunni….. þegar nær var komið sá ég að garðurinn minn var skreyttur með fánum og kertaluktum, fullt af nýjum garðhúsgögnum voru þarna og það besta fullt, fullt fullt af fólki sem mér þykir svo óendanlega vænt um. Allt þetta fólk hafði lagt á ráðin með manninum mínum og dætrum. Sum þeirra höfðu tekið frí frá vinnu þennan dag og mætt heim til mín þegar ég var farin til vinnu, skreytt hús og garð, útbúið veitingar, náð í garðhúsgögn, glös og skreytingar hingað og þangað um bæinn – og slegið upp fallegustu, skemmtilegustu og bestu veislu sem hægt er að hugsa sér.  Elskulegur eiginmaður minn hafði sumsé ekki verið að vinna frameftir nokkur kvöld þessa viku eins og hann hafði sagt mér, heldur hitt nokkrar góðar vinkonur mínar til þess að leggja á ráðin og skipta verkum. Þessir fundir voru víst mjög skemmtilegir – meðal annars var frumútgáfan af þessum drykk þróuð á þessum fundum, enda ein vinkona mín margfaldur íslandsmeistari barþjóna og kann sitthvað þegar kemur að einföldum og góðum drykkjum sem hugnast flestum. Það var hrærð, glöð og þakklát kona sem tók á móti nýjum áratug með besta fólkinu sínu.

Í dag er síðasti vetrardagur, nokkrir mánuðir og heill vetur frá þessum stórkostlega stórafmælisdegi mínum og minningarnar frá þessum dásemdar degi munu ylja mér um ókomin ár. Á morgun er sumardagurinn fyrsti – um leið og ég segi gleðilegt sumar vil ég enn og aftur segja ástarþakkir öll sem eitt, fjölskylda, vinir, vinnufélagar – það er fátt betra en eiga góða að!  Njótum hvers dags og búum saman til góða innistæðu í minningarbanka okkar – slík innistæða er tölvuert verðmætari en bankareikningar á Tortóla 🙂

 Uppskrift (eitt glas) 

 • 30 ml. gin
 • lime, safi úr hálfu + ein þunn sneið
 • 1 grein rósmarín
 • 3-4 þunnar sneiðar rautt cili
 • 1-2 sneiðar agúrka
 • klaki
 • Seven up eða Sprite

Setjið gin, limesafa, eina sneið chili og tvær nálar af rósmaríngreininni í glas og merjið saman með skeið eða mortéli til að fá bragðið af chili og rósmarín betur fram.  Hálf-fyllið glasið með klaka, setjið gúrku, chili og rósmarín greinina í glasið og hellið seven upp yfir þar til glasið er nánast fullt, hrærið saman og njótið – SKÁL 🙂

img_6031
p.s. Einfalt er að gera þennan drykk óáfengan með því að sleppa gininu, þannig er hann bæði mjög góður og alveg jafn fallegur.

img_0006

 

Birt í Drykkir, Vinsælar uppskriftir | Merkt , , , , , , , | Ein athugasemd

Grænmetisbaka undir miðjarðarhafsáhrifum

GrænmetisbakaStútfull af ofnbökuðu grænmeti og ricotta- og fetaosti. Þessi baka er ómótstæðileg og gjarnan á borðum hjá Vatnholtsgenginu þegar húsmóðirin er í stuði og útbýr ferskan ricotta skv. þessari uppskrift hér.  Þetta er matarmikil og saðsöm baka, bragðið er milt en margslungið. Bakan er að sjálfsögðu best nýbökuð, hvort sem er á árdegisverðarborðið eða sem aðalréttur með einföldu og góðu salati. Hún er ekki síður góð og ákaflega vinsæl í nestisboxið daginn eftir, það er ef það er þá nokkuð eftir 😜.

Smá aðvörun – þetta er alvöru baka sem krefst smá fyrirhafnar, sem n.b. er vel þess virði. Margir vilja forbaka bökubotninn, en við sleppum því yfirleitt – botninn verður aðeins blautari fyrir vikið, en ef bakan er bökuð neðarlega í ofninum þá finnst okkur það ekki koma að sök. Hliðarnar eru stökkar og góðar, en þær eiga það til að síga of mikið við forbökun nema bökubotninn sé stútfylltur af baunum og það eru alveg hreint ansi margar baunir sem þarf í svona djúpan bökubotn.

IMG_6945Uppskrift

Botn

 • 150 gr. smjör – kalt og skorið í teninga
 • 250 gr. hveiti
 • 1/2 tsk. salt
 • 1 eggjarauða
 • 3-4 msk. ískalt vatn

Fylling 

 • 1 rauð paprika
 • 1 eggaldin
 • 1 sæt kartafla
 • 1 kúrbítur
 • 1 laukur
 • 1 lárviðarlauf
 • ferskt tímían, nokkrar greinar, eða 2 tsk. þurrkað
 • 1/2 bolli ricotta ostur
 • 100 gr. fetasostur
 • 8-9 konfekttómatar
 • 4 egg (+eggjavítan frá egginu sem er í botninum)
 • 1 peli rjómi
 • olífuolía, nokkrar msk.
 • salt og pipar

Byrjið á að útbúa bökubotninn.  Hnoðið saman smjöri og hveiti – okkur hefur reynst best að vinna deigið í matvinnsluvél. Bætið salti, eggjarauðu og hluta af vatninu saman við og hnoðið þar til deigið er komið í góða kúlu. Athugið að ekki er víst að það þurfi allt vatnið og gætið þess að hnoða deigið ekki of mikið. Fletið deigið fremur þunnt út og klæðið bökuformið með því, pikkið með gaffli og setjið í kæli á meðan þið útbúið fyllinguna eða í u.þ.b. klukkustund.

Hitið ofninn í 220°C.

baka-grænmetiSkerið ofan af paprikunna og fræhreinsið, skerið síðan í 4-5 hluta.  Leggið paprikuna á ofnplötu og setjið ofarlega í funheitan ofninn og látið bakast jafn lengi og allt annað grænmeti er útbúið eða þar til ysta lagið er orðið mjög dökkt.

Laukur á pönnuSkerið laukinn í þunnar sneiðar og sneiðarnar í tvennt, látið malla á pönnu við vægan hita í 2 msk.af olíu með einu lárviðarlaufi á meðan grænmetið er bakað í ofinum, hrærið reglulega í lauknum, en hann má alveg brúnast aðeins.

Skerið eggaldin í u.þ.b. 1 cm þykkar sneiðar og hverja sneið í 4 parta, veltið upp úr 2 msk. af olífuolíu og kryddið með salti og pipar.  Setjið á pappírsklædda ofnplötu og bakið fyrir neðan paprikurnar í 10 mín.

Næst er sæta kartaflan afhýdd og skorin í bita u.þ.b. 1,5  cm. á kant.  Bitunum velt upp úr smá olíu og kryddað með salti og pipar.  Bætið sætu kartöflunum á plötuna með eggaldininu og bakið áfram í um það bil 8 mínútur.

Loks er það kúrbíturinn sem er skorinn í 1 cm þykkar sneiðar og hver sneið í 4 parta, kryddað með svolitlu salti og pipar og bætt á plötuna með sætu kartöflunum og eggaldinunu og bakað áfram í 5-7 mín.

Nú hefur grænmetið bakast í ofninum í u.þ.b. 25 mínútur og paprikurnar ættu að vera orðnar mjög dökkar. Takið allt grænmetið úr ofninum, setjið paprikurnar í hitaþolinn plastpoka, lokið og leyfi þeim að „svitna“ svolítið áður en þær eru afhýddar og skornar í bita u.þ.b. 1,5 cm.  Blandið öllu ofnbakaðan grænmetinu saman.

Lækkið hitann í ofninum niður í 180°C.

Takið bökubotninn úr ískápnum og dreifið lauknum yfir hann. Setjið helminginn af ofnbakaðan grænmetinu ofan á laukinn. Dreifið helmingnum af ricotta- og fetaostinum yfir og kryddið með helmingnum af tímíaninu. Þá fer restin af ofnbakaða grænmetinu ofaná. Skerið tómatana í tvennt og raðið þeim ofan á grænmetið, dreifið restinni af ostinum yfir.

Hrærið eggjum og rjóma saman, kryddið með salti og pipar og hellið varlega yfir bökuna. Stráið restinni af tímíani yfir. Bakið við  180°C neðarlega í ofninum í 30-35 mínútur. Takið út og leyfið bökunni aðeins að kólna áður en þið takið hana úr forminu.  Berið fram með góðu grænu salati.

Grænmetisbaka

Birt í Árdegisverður (Brunch), Bökur, Grænmetirréttir | Merkt , , , , , , , , , | Færðu inn athugasemd

Spínat lasagne með ricotta, pestó og furuhnetum

Spínat lasagneGrænmetisréttir eru hrein snilld og þrátt fyrir að Vatnsholtsgengið borði enn kjöt og fisk, þá höfum við markvisst fjölgað þeim dögum sem við eldum góða grænmetisrétti. Þessi réttur er einn þeirra – hugmyndin er úr einu af Olive matar-tímaritinu sem ég er rafrænn áskrifandi af og fæ sent á I-padinn minn reglulega.

Ég hef nokkrum sinnum eldað þennan rétt og hann vekur alltaf mikla ánægju, meira að segja táningurinn umlar af ánægju. Hún sem var full efasemda í fyrsta sinn sem við elduðum hann og óskaði eftir því að það væru tvær útgáfur af lasagne á boðstólnum, það er þessi hér líka sem er hennar uppáhalds. Núna á hún tvo uppáhalds-lasagna rétti. Ég hlakka ósegjanlega mikið til að elda þá báða fyrir hana þegar hún kemur heim eftir tæplega árs skiptinema dvöl í Austuríki. Þangað til mun hún spreyta sig sjálf á eldamennskunni og leyfa Austurrísku fjölskyldunni sinni að njóta með sér, en ákall hennar eftir þessari uppskrift varð til þess að ég ákvað að skrá og mynda réttinn eins og hann hefur þróast hjá okkur – já þetta blogg er svo sannarlega fjölskyldusport.

Hráefni - Spínat lasagneUppskrift

 • 75 gr. smjör
 • 75 gr. hveiti
 • 600 ml. mjólk
 • 300 gr. ricotta ostur*
 • 50 gr. parmesan ostur, rifinn
 • 50 gr. rifinn ostur
 • 1 tsk. múskat (best er að rífa múskathnetu, kryddið er mun ferskara þannig)
 • 200 gr. ferskt spínat, saxað fremur gróft
 • 1 laukur, saxaður smátt
 • 150 gr. grænt pestó – þetta hefðbundna ítalska, heimalagað er best sjá uppskrift hér
 • 175-200 gr. lasagne plötur
 • 2 msk. furuhnetur

Skerið laukinn smátt og látið hann krauma við vægan hita í smá smjöri og olíu í 7-10 mínútur, á meðan þið útbúið sósuna.

Bræðið smjör í fremur rúmgóðum potti, fyllingin endar öll í þessum potti svo hann þarf að vera rúmur. Gætið þess að hafa hitann á smjörinu ekki of mikinn, hrærið hveitinu út í heitt smjörið og búið til hveitibollu.  Hrærið mjólkinni saman við í smáum skömmtum.  Kryddið með salti, pipar og nýrifnu múskati.  Látið malla í smá stund og hrærið stöðugt í á meðan. Blandið lauknum sem hefur nú mallað í dágóða stund saman við sósuna og takið pottinn af hitanum. Bætið ricotta ostinum og ríflega helmingnum af parmesan ostinum út í og hrærið þar til ostarnir hafa blandast sósunni hefur vel.

Spínat lasagneTakið nokkrar msk. frá til að setja ofan á efsta lagið í lokin.  Hrærið nú fersku spínatinu saman við og loks grænu pestói.

Setjið 1/3 eða 1/4 í botninn á eldföstu ferköntuðu fati (magn af sósunni fer eftir stærð á fatinu sem þið eruð með, minna fat fleiri lög).  Raðið pasta plötum ofan á og síðan sósu – 3-4 lög.  Ofan á efsta lagið af lasagne plötum fer sósan sem þið tókuð frá áður en spínati og pestó var hrært út í.  Stráið rifnum osti og restinni af parmesan ostinum yfir og loks furuhnetunum.  Bakið við 180°C í 35 – 45 mínútur.  Berið fram með einföldu salati.

* Uppskrift af Ricotta má nálgast hér en stundum er unnt að kaupa ferskan ricotta í ostabúðum eða betri matvöruverslunum, en auk þess er unnt að nota kotasælu í stað ricotta.

IMG_7102

Birt í Ítalskir réttir, Grænmetirréttir | Merkt , , , , , , , | Færðu inn athugasemd

Páska krans (afmælis-krans)

PáskakransUm páskana er upplagt að gera svolítið vel við sig, hóa saman besta fólkinu og smella í góðan árdegisverð.  Við tókum forskot á sæluna, skreyttum borð, smelltum í góðan gerbrauðkrans með súkkulaði, pekanhnetum og marsipani, keyptum gott súrdeigsbrauð hjá Sandholt, bökuðum sætar kartöflur, smelltum í pestó, röðuðum dásemdar áleggi fallega á bakka, kreistum sikileyskar blóðappelsínur og blönduðum saman við safa af nokkrum gulrótum og engifer – kveiktum á kertum og áttum dásemdarstund með góðu og fallegu fóki upp úr hádegi í dag. Stundir sem þessar verða seint ofmetnar og eru viðeigandi á degi sem tileinkaður er hamingjunni, en alþjóðlegi hamingjudagurinn er i dag. Í dag eru líka vorjafndægur og Friðarsúlan í Viðey mun næstu sjö kvöld minna okkur á mikilvægi þess að hugsa okkur frið  – vikan getur vart byrjað betur.

Páskakrans - hráefniUppskrift

 • 25 gr. ferskt ger eða 2,5 tsk. þurrger
 • 2,5 dl. mjólk
 • 1 msk. hrásykur
 • 80 gr. smjör
 • 1 egg
 • 450-500 gr. hveiti

Fylling

 • 50 gr. smjör, brætt
 • 3 msk. hrásykur
 • 100 gr. marsipan
 • 100 gr. súkkulaði
 • 60 gr. pekanhnetur

Ofan á

 • 1 egg
 • 1 msk. hrásykur

Hitið mjólkina í u.þ.b. 37°C eða þar til  hún er fingurvolg.  Hrærið 1 msk. af hrásykri og gerinu saman við.  Látið standa þar til gerið fer að freyða.

Páskakrans 1Bræðið smjörið, setjið hveiti, egg og brætt smjör í hrærivélaskál. Hellið ger-mjólkur-blöndunni saman við og hnoðið vel í u.þ.b. 5-7 mínútur, sjálf nota ég hrærivélina mína til verksins og deigkrókinn sem henni fylgir.  Athugið að byrja á að nota 450 gr. af hveitinu og bæta frekar meiru saman við ef deigið er allt of blautt.  Deigið á að vera sprungulaust og glansandi.  Setjið klút yfir skálina og látið hefast á hlýjum stað í 1-2 klukkustundir.

Páska-krans2Ristið pekanhnetur á heitri pönnu og saxið gróft. Saxið súkkulaðið fremur gróft og bræðið smjörið.

Fletjið deigið út þar til það er u.þ.b. 45X35cm. Penslið með bræddu smjöri, stráið sykri yfir smjörið, dreifið þá hnetunum og súkkulaðinu jafnt yfir og rífið marsipanið loks yfir allt saman.

Páskakrans3Rúllið deiginu þétt saman og skerið eftir endilöngu í tvennt. Vefjið lengjunum saman.  Setjið á pappírsklædda bökunarplötu og búið til hring/krans.  Setjið klút yfir kransinn og látið hefast í 30-60 minútur.

Hitið ofninn í 180°C og blástur.  Penslið með þeyttu eggi og stráið 1 msk. af hrásykri yfir.  Bakið í 30-35 mínútur.

IMG_7061

Birt í Árdegisverður (Brunch), Bakstur | Merkt , , , , , , , | 2 athugasemdir

Silungur með perlubyggi og spergilkáli

IMG_6824Ég stóðst ekki mátið þegar ég sá tilkynningu um nýjan sjógenginn regnbogasilung frá versluninni Kjöt & Fisk  á fésbókarsíður þeirra í dag. Matseðill kvöldsins var ákveðinn og frumburðinum og fjölskyldu hennar boðið í mat. Hugmyndin af þessum rétti er fengin úr ástralska matartímaritinu Donna Hay sem ég er rafrænn áskrifandi af á Ipadinn.  Að sjálfsögð breytti ég,  stíl- og staðfærði uppskrifina og útkoman hreint stórgóð.

IMG_6811Uppskrift 

 • 1 bolli Perlubygg frá Móður Jörð 
 • 2,5 bollar gott grænmetissoð
 • 500 gr. spergilkál, skorið í bita
 • 1 dl. möndlur, gróf skornar
 • 1/2 – 1 rauður chili, skorinn smátt
 • olífuolía
 • salt og pipar
 • 800 gr. væn silgungs- eða laxaflök
 • 3 msk. gott rautt pestó, t.d. heimagert sjá þessa uppskrift hér 
 • rifin sítrónubörkur af 1 sítrónu
 • 1 msk. sítrónusafi

Hitið ofninn í 200°C.

Sjóðið perlubyggið í góðu grænmetissoði í 15 mínútur eða skv. leiðbeiningum á pakkanum.

IMG_6813Setjið olífuolíu um það bil u.þ.b. 2-3 msk. af olífuolíu, skorið chili, spergilkál, möndlur salt og pipar í stóra skál og veltið því saman svo það blandist vel.

IMG_6815Setjið á pappírsklædda ofnplötu og bakið við 200°C í 5-7 mínútur.

IMG_6817Saltið og piprið fiskinn, stráið örlítilu af rifnum sítrónuberki yfir hann og setjið í ofnskúffuna með spergilkálinu. Bakið áfram í 8-10 mínútur eða þar til fiskurinn er rétt um það bil rétt eldaður – ath að hann heldur áfram að eldast þegar hann er tekinn út úr heitum ofninum.

Þegar perlubyggið er soðið er það sett í stóra skál ásamt pestó, rifnum sítrónuberki af u.þ.b. 1/2 sítrónu og sítrónusafa og hrært vel saman.  Blandið síðan spergilkálblöndunni saman við perlubyggið – raðið fallega á fat ásamt fiskinum og berið strax fram með einföldu grænu salati ef vill.

IMG_6828

 

Birt í Fiskur og sjávarfang | Merkt , , , , , , , , | Færðu inn athugasemd

Chia morgungrautur

 Chia fræ hafa verið í tísku um nokkurt skeið og eru hluti af því sem skilgreint hefur verið sem ofurfæða. Chia fræin eru mjög próteinrík, innihalda jafnframt mikið magn omega 3 og 6 fitusýrum, kalki, járni, magnesíum, fosfór, trefjum og andoxunarefnum. Fræin hafa góð áhrif á blóðsykurinn sökum hás innihalds  próteins, trefja og fitusýra. Þau geta allt að 12 faldað þyngd sína ef þau eru látin liggja í vatni í dálitla stund, þau bólgna út og eru mjög seðjandi. Samkvæmt heimildum sem ég hef lesið á netinu má rekja sögu chia fræsins allt aftur til 3500 f.kr. en þau eru sögð hafa verið mikilvægur hluti af fæðu Maya og Azteca.

Sjálf hef fram til þessa ekki verið sérlega hrifin af Chia grautum og átti chia fræ sem voru um það vil að renna út á tíma, þegar ég uppgötvaði töfra þess að blanda þeim saman við bragðgóðan og svolítið þunnan þeyting, setja í skál eða krukku inn í ísskáp yfir nótt,  bæta síðan ferskum ávöxtum og múslí út á grautinn morguninn eftir og ola ……  Fljótlegt, gott, seðjandi og stútfullt af hollustu – eftir þessa uppgötvun hef ég útfært þennan graut á hina ýmsu vegu – og þarf nú að fara út í búð að endurnýja birgðirnar af chia fræjum.

 Uppskrift

 • 1/2 banani vel þroskaður
 • 1/2 dl bláber frosin (eða frosin hindber, mangó eða ananas)
 • 1 msk. möndlusmjör
 • 1 msk. lucumaduft eða 1 tsk. gott hunang
 • 1 1/2 dl. kókosvatn (eða vatn, möndlumjólk, haframjólk)
 • 4 msk. chia fræ

Ofan á 

 • músli, heimagert er best sjá uppskrift hér
 • ferskir ávextir í bitum s.s. jarðarber, mangó eða annað

Setjið banana, frosin bláber, möndlusmjör, lucumaduft og kókosvatna í blandarann og þeytið vel.

 Setjið chia fræin í skál, hellið þeytingnum yfir og hrærið vel saman.

 Látið standa um stund, sjálf útbý ég þetta að kvöldi og geymi í ísskápnum yfir nótt. Hrærið svolítið upp í grautnum áður en hann er borinn fram og setjið múslí og ferska ávexti ofan á – Njótið.  Uppskriftin er miðuð við eina skál – en mjög auðvelt er að stækka hana og aðlaga að smekk hvers og eins.

Birt í Morgunmatur | Merkt , , , , , | Færðu inn athugasemd

Heslihnetu- og súkkulaðismyrja

 Heslihnetur og súkkulaði ásamt rjóma og örlitlu hunangi, maukað saman og smurt á bollur, vöfflur, gott súrdeigsbrauð eða gott kex er hrein dásemd. Á morgun er bolludagur og því upplagt að rifja upp þessa tilraun.  Við höfum nokkrum sinnum gert mauk sem þetta, en aldrei skráð og/eða myndað fyrr en nú.  Hér er á ferð heiðarleg tilraun til að gera hollari útgáfu af hinu ítalska Nutella sem ku aldeilis ekki teljast til hollustu.  Ef valið á súkkulaði og hunangi er vandað þá er þetta ekki bara dásamlega gott heldur líka í hollari kantinum – tja í hóflegu magni í það minnsta 🙂  Sunnudagsdekur sem undantekningalaust fær ákaflega jákvæð viðbrögð – meira að segja eiginmaðurinn nánast hoppar hæð sína….  okí, smá ýkjur hann er nær því 190 cm á hæð og lofthæðin býður ekki upp á slíkt hopp 🙂  Það er svolítil fyrirhöfn í þessu mauki en hún er vel þess virði.  Í dag smurðum við þykku lagi á vatnsdeigsbollur, settum ferskt jarðarber í sneiðum og eina msk. af þeyttum rjóma ofan á maukið og útkoman var hreint afbragðs bolludagsbolla. En eins og áður segir er maukið  líka hrein dásemd með vöfflum og rjóma eða bara smurt ofan á gott súrdeigsbrauð.

 Uppskrift 

 • 200 gr. heslihnetur
 • 20 gr. möndlur (má sleppa)
 • 300 gr. suðusúkkulaði
 • 2,5 dl. rjómi
 • 1 msk. hunang
 • örlítið salt
 • vanilla ef vill

Hitið ofninn í 180°C – setjið heslihnetur og möndlur á pappírsklædda bökunarplötu og ristið í ofninum í um það bil 15 mínútur eða þar til þær fara aðeins að taka lit.

Hitið rjómann við vægan hita,hrærið hunang og örlítið salt saman við.  Brytjið súkkulaðið í grófa bita og setjið saman við heitan rjómann -hrærið saman þar til súkkulaðið er alveg bráðið.   
Þegar hneturnar eru ristaðar, eftir um það bil 15 mínútur í ofninum, takið þær út og setjið heitar á hreint viskustykki.  Pakkið viskustykkinu utan um hneturnar og nuddið vel, þannig að hýðið losni utan af þeim.  Það er ekki nauðsynlegt að taka allt hýðið utan af hnetunum, en endilega takið sem allra mest og sérílagi allt sem er laust.
 Setjið hneturnar í matvinnsluvél – og maukið í nokkrar mínútur, bætið þá bræddu súkkulaðinu og rjómanum saman við og maukið vel. Setjið í hreinar krukkur og njótið.

 

Birt í Pestó, sultur og chutney | Merkt , , , , , | Færðu inn athugasemd

Lambalæri með ítölsku ívafi

IMG_4410Fátt minnir mig meira á æsku mína en ofnsteikt lambalæri á sunnudegi. Í allmörg ár fór ég í sveit á hverju sumri, fyrst sem vinnukona og sá þá um innistörf, matseld og barnagæslu – en síðasta sumarið sem vinnumaður í útistörfum og kom þá lítið eða ekkert að matseld. Sumardvalirnar voru jafn ólíkar og þær voru margar, en ég dvaldi á þremur bæjum í Húnavatnssýslunni í samtals 5 sumur. Eitt var þó sammerkt á öllum stöðunum og það var lambasteikin á sunnudögum, oftast ofnsteiktur hryggur eða læri, sem var kryddaður með salti og pipar og borinn fram með  brúnni soðsósu, brúnuðum kartöflum, Ora grænum baunum og rauðkáli að ógleymdri rabararbarasultunni sem þótti ómissandi með sunnudagssteikinni í þá tíð.

Uppskrift dagsins er töluvert frábrugðin gömlu sunnudagssteikinni sem ég er alin upp við – annað en aðalhráefnið sem er lambalæri.  Þetta læri fékk toppeinkun og verður án efa eldað fljótlega aftur þessari uppskrift. Sannarlega aðeins meiri fyrirhöfn en þetta gamla góða, en vel þess virði.  Meðlætið er töluvert hollara en það sem lýst er hér að ofan – einföld soðsósa, ofnbakaðar rósmarínkartöflur og smjörsteikt grænmeti.

IMG_4357Uppskrift

 • Lambalæri
 • 2-3 stilkar rósmarín
 • 2-3 stilkar tímían
 • 6-8 lauf af salvíu
 • 6 hvítlauksrif
 • 3-4 sn. hráskinka
 • 4 ansjósuflök
 • 2,5 dl. hvítvín
 • 2 rauðlaukar – saxaðir gróft
 • salt og pipar

Hitið ofninn í 220°C. Setjið gróf saxaðan laukinn og hvítvínið í botninn á ofnfati.

Stingi raufar með litlum, beittum og þunnum hníf u.þ.b. 2-3 cm inn í lærið á nokkrum stöðum.

IMG_4360Skerið hvítlauksrifin í tvær til þrjár sneiðar eftir stærð, skerið hráskinkuna í þunnar ræmur.

IMG_4361Leggið sneið af hvítlauksrifi, 1/3 af ansjósuflak, 1/2 sneið af salvíu og rósmarín nál á hráskinkuna og rúllið upp og troðið í götin á lærinu.

IMG_4369Saxið afganginn af salvíunni og rósmaríninu og takið laufin af tímíanstilkunum og blandið vel saman. Penslið lærið með olífuolíu, stráið kryddjurtunum yfir lærið, piprið og saltið, en fari varlega með saltið þar sem bæði ansjósurnar og hráskinkan eru fremur sölt.

Setjið lærið í ofnfatið og bakið 220°C í 15 mínútur, lækkið þá hitann í 180°C og steikið áfram í u.þ.b. 45-60 mín. eða þar til kjarnhitinn er um 60°C   Dreypið soðinu sem myndast í ofnfatinu yfir lærið öðru hverju, eða svona 2-3 sinnum yfir steikingartímann.

Sósan er ákaflega einföld soðsósa. Hellið vökvanum af lærinu í pott í gegnum sigti og hitið að suðu, látið malla við vægan hita í smá stund.  Fyrir þá sem vilja er gott að setja 1 pela að rjóma saman við og hita að suðu. Smakkið til með salti og pipar.

Berið lærið fram með ofnbökuðum rósmarín kartöflum (uppskrift hér), smjörsteiktu grænmeti og sósunni.

IMG_4412

 

 

Birt í Kjötréttir, Vinsælar uppskriftir | Merkt , , , , , , , , | Færðu inn athugasemd

Rósmarín kartöflur

IMG_4410Stundum þarf ekkert mörg orð eða langan texta til að lýsa einföldu og góðu hráefni – kartöflur sem þessar eru gjarnan á boðstólnum hjá Vatnsholtsgenginu.  Uppskriftin er einföld og kartöflurnar góðar hvort sem er með sunnudagslærinu, nautasteikinni eða góðum fiskrétt.

IMG_4372Uppskrift

 • 1 kg. kartöflur
 • 2-3 msk. olífuolía
 • nokkrir stilkar ferskt rósmarín
 • 2-4 hvítlauksrif
 • salt og pipar

IMG_4374Þvoið kartöflurnar, þerrið og skerið í báta, ég skræla þær aldrei, finnst bæði smart og gott að hafa hýðið á þeim.

IMG_4373Saxið rósmarín gróf, merjið hvítlaukinn undir hnífsblaði og saxið smátt.  Setjið olífuolíu í skál og hrærið hvítlauk og rósmarín saman við.  Setjið kartöflurnar útí skálina og blandið vel saman. Þetta má alvega standa i skálinni í smá stund á meðan matseld á aðalréttinum er undirbúinn.

IMG_4375Setjið kartöflurnar í ofnskúffu, saltið og piprið e. smekk.  Bakið við 180°C í u.þ.b. 40 mínútur. Berið fram með góðri steik eða góðum fiskrétti.

Birt í Meðlæti | Merkt , , , , | Ein athugasemd